Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Viðbrögð við ákvörðun Trumps: Harpa lýst græn

02.06.2017 - 16:26
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að Reykjavíkurborg og íslenska ríkið ætla að bregðast við ákvörðun Bandaríkjaforseta í loftslagsmálum með því að upplýsa Hörpu græna. Donald Trump forseti Bandaríkjanna lýsti því yfir í gær að hann ætli að draga Bandaríkin út úr Parísarsáttmálanum um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum af manna völdum.

 „Við náttúrulega bregðumst við með því að lýsa vonbrigðum og ætlum að feta í fótspor margra borga í heiminum í samvinnu við ráðherra ríkisstjórnarinnar og hafa Hörpu græna til að sýna þá samstöðu sem er þrátt fyrir allt í borgum og löndum eiginlega alls heimsins um að loftslagsmálin eru mjög mikilvæg. Parísarsamkomulagið var algjört grundvallaratriði og í raun alveg skelfilegt að Bandaríkin séu að gefa þessi skökku skilaboð,“ sagði borgarstjóri í viðtali við Jóhann Bjarna Kolbeinsson fréttamann síðdegis. 

Dagur segir að ríki og borg hafi tekið þá ákvörðun að gera Hörpu græna á blaðamannafundi um húsnæðismál síðdegis. 

Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra lýsti vonbrigðum sínum með ákvörðun Trumps í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hún telur að það verði frekar orðstír Bandaríkjanna en aðgerðir gegn loftslagsbreytingum sem eigi eftir að bera skaða af ákvörðun Bandaríkjaforseta. 
 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV