Viðbragðsáætlun í Bláa lóninu

Mynd: Peter Stewart / Peter Stewart
Framkvæmdastjóri hjá Bláa lóninu segir að farið hafi verið yfir viðbragðs- og viðbúnaðaráætlanir í samvinnu við almannavarnir og aðra á svæðinu , komi til hamfara á svæðinu. Ekki hafi borið á afbókunum.

Vel á aðra milljón manns, einkum erlendir ferðamenn, hafa sótt Bláa lónið heim árlega undanfarin ár. Fyrirtækið er sem kunnugt á svæði þar sem óvissustigi hefur verið lýst yfir vegna jarðskjálfta og landriss. 

„Við höfum verið að fara yfir okkar viðbragðs- og viðbúnaðaráætlanir. Við höfum líka verið í góðu samtali og samstarfi við aðra hagaðila á svæðinu og skoðað þessa hluti heildrænt og svo erum við auðvitað búin að vera í góðu samtali við almannavarnir og fylgjumst vel með stöðu mála og þróun.
Þannig að það eru til áætlanir ef að þyrfti að rýma Bláa lónið?
Já, já við erum með áætlanir bæði um það og eins til að mynda hvað varðar áhrif á mannvirki og svo framvegis,“ segir Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri vöruþróunar sölu- og markaðssviðs Bláa lónsins.

Hún segir að ekki hafi borið á afbókunum vegna ástandsins. En er gestum sem koma gerð grein fyrir stöðunni?

„Við höfum fyrst og fremst verið að leggja áherslu á að upplýsa okkar framlínufólk þannig að þeir geti þá brugðist við og svarað fyrirspurnum sem geta komið til, við höfum ekki orðið vör við mikið af fyrirspurnum. Svo höfum við verið með á okkar vefsvæðum líka upplýsingar fyrir þá sem að þar fara inn. En svona almennt þá erum við auðvitað bara að horfa til þessa viðbúnaðarstigs sem er núna, sem er lægsta stig, og erum þess vegna bara að fylgjast með þróun mála í góðu samtali við almannavarnir.“