Viðbótarvaraforseti tekur við Klausturmálinu

15.01.2019 - 14:31
Mynd með færslu
 Mynd:
Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis og formenn allra þingflokka komust að þeirri niðurstöðu á fundi sínum í hádeginu að velja viðbótarvaraforseta í forsætisnefnd sem verði falið að taka við Klausturmálinu og koma því í viðeigandi farveg

Þetta eina mál verði verkefni nefndarinnar og það verði hennar verkefni að vísa málinu til siðanefndar.

Forseti Alþingis ásamt þingflokksformönnum munu koma með tillögur að þeim sem taki sæti í nefndinni og segir Steingrímur góða samstöðu hafa verið um það að velja „úr hópi þeirra þingmanna sem eru óumdeilanlega hæfir og hafa ekki tjáð sig á neinn hátt þannig um málið að hægt sé að draga hæfi þeirra og hlutlægni í efa og þeim verði svo falið að taka við málinu og og koma því í réttan farveg.“

Steingrímur segir að hann geri ráð fyrir að í næstu viku muni þingið með afbrigðum frá þingsköpum kjósa tvo til þrjá viðbótarvaraforseta. „Það skiptir ekki öllu máli hve margir þeir verða og þeir taki að sér að að halda utan um málið.“  Steingrímur segir að hann muni útbúa tillögurnar um varaviðbótarforseta í samráði við formenn þingflokka og bera svo upp tillögu um frávik og afbrigði frá þingsköpum og um kosninguna.

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV