Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Viðamikil gosrannsókn

22.04.2011 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Umfangsmikil rannsókn er að hefjast í Bretlandi á öskufallinu frá Eyjafallajökli í gosinu í fyrra. Bresk náttúrurannsóknarstofnun hyggst veita rúmum hálfum milljarði króna í rannsóknina.

Margir helstu sérfræðingar Breta í eldfjallafræðum, gosmökkum og loftlagsmálum vinna að rannsókninni sem hefur hlotið þriggja milljóna punda styrk eða ríflega hálfan milljarð króna. Magnús Tumi Guðmundsson jarðfræðingur segir að íslenskir vísindamenn muni ekki vinna beint að rannsókninni. Bretarnir ætli sér að rannsaka hegðun gosmakka og útbreiðslu gjósku og ösku í andrúmsloftinu með gjóskuskýjum og bera saman líkön og upplýsingar úr gervitunglum.


Magnús segir mikilvægt að gera rannsókn af þessu tagi, ,, vegna þess að hún skiptir ekki bara máli á nokkurra áratugafresti í Evrópu, heldur eitthvað sem gerist árlega og nokkrum sinnum á ári einhvers staðar í heiminum og gjóskuský í andrúmsloftinu sem menn vita ekki af ógna flugumferð."


Magnús Tumi bendir á að gervitunglamyndir hafi ekki reynst nógu nákvæmar í gosinu fyrir ári. Brýnt sé að finna leið til þess að lesa betur út úr þeim, t.a. mynda þegar flogið er yfir stór hafsvæði þar sem ekki er hægt að reyna sig á beinar mælingar á gjósku. Vísindamenn við Háskóla Íslands rannsaki einnig gosmökkinn úr Eyjafjallajökli og séu í samstarfi við norska starfsbræður sína sem hafa mælt öskufall þar í landi.