
Rútan fór út af á Mosfellsheiðinni og valt á hliðina. Í henni var fjörutíu manna hópur, og komu flestir frá Kína og Taívan. Þar var einnig íslenskur leiðsögumaður og rútubílstjóri.
Leiðsögumaðurinn segir í samtali við fréttastofu að hún eigi erfitt með að segja nokkuð neikvætt um slysið. Ástæðan er viðbrögð hjálparstarfsmanna og ekki síst þeirra vegfarenda sem komu fyrstir á slysstað. „Ég átti ekki von á að allt þetta fólk sem kom þarna að gæti gefið svona mikið af sér,“ segir hún. „Við vorum umvafin kærleika.“
Hún segist óendanlega þakklát öllum þeim sem lögðu hönd á plóg; björgunarsveitarmönnum, sjúkraflutningamönnum, lögreglu, Rauða krossinum og vegfarendum. Stuttu eftir slysið hafi tvær rútur komið þar að, og komið farþegum í skjól.
Ekki bílstjóranum að kenna
Hún segir að það sé ekkert sem bílstjórinn hefði getað gert til að koma í veg fyrir slysið. „Þetta var ekki bílstjóranum að kenna. Hann var á um það bil 30 kílómetra hraða. Það er ekkert sem hann hefði getað gert, og ekki breytt neinu þó að hann hefði verið á nagladekkjum.“ Aðstæður á slysstað hefðu verið þannig að það varð ekki við neitt ráðið. „Bílstjórinn ók mjög varlega, enda góður og reyndur bílstjóri. Aðstæður á leið til Þingvalla voru skyndilega slæmar; rok og slydda og ísing myndaðist á veginum. Vindhviða lenti á bílnum, ísing á vegi og allt í einu var rútan á leið út af. Hægt, að mér fannst. Og rútan lenti á hliðinni.“ Hún hafi þá hringt í neyðarlínuna.
„Fólk var slasað í rútunni.“ Hún segir hjálpina hafa borist skjótt. „Þetta gekk allt mjög fljótt og fumlaust.“ Mestu máli hafi þó skipt viðmót fólksins. „Ekki bara hjálparstarfsfólksins og lögreglu heldur líka þeirra sem komu að. Við vorum eiginlega umvafin hjálpsömu fólki.“
Faðmlögin mikils virði
Sjúkrabílar fluttu þá slösuðu á sjúkrahús, en hún var flutt ásamt þeim sem voru lítið eða ekkert slasaðir í hjálparstöð Rauða krossins í Mosfellsbæ, sem var virkjuð vegna slyssins. „Þar var fullt af hjálpsömu fólki, búið að sjóða súpu og boðið upp á brauð, kaffi og kex. Þar voru konur og menn með stór hjörtu tilbúin að umvefja okkur öll sem lentu í erfiðri reynslu. Ég veit ekki hvernig er hægt að þakka þessu frábæra fólki fyrir öll faðmlögin, sem mitt fólk sannarlega kunni að meta,“ segir hún.
Þakklát fyrir að vera á lífi
Kínverskur hópstjóri sem fréttastofa hefur rætt við tekur í sama streng. „Fólkið sem kom til hjálpar var svo hlýlegt,“ segir hún. Hún er þakklát þeim sem komu til aðstoðar og fyrir að vera á lífi, en hún slapp án meiðsla. Aðrir hafi ekki verið eins heppnir, en hún segir að einhverjir hafi þurft á aðgerð að halda vegna skaða á baki eða mænu. „Ég bið þess að allir snúi heilir á húfi aftur heim,“ segir hún.
Annar kínverskur hópstjóri segist vilja þakka sérstaklega vegfarendum sem komu til hjálpar og öllum björgunarstarfsmönnum. Hann segist kunna vel að meta kveðjur og hlýhug jafnt frá vinum sem frá ókunnugum. Kínversku hópstjórarnir birtu meðfylgjandi myndir á Facebook, en þau hafa bæði haldið áfram ferðalaginu um Ísland.