„Við vorum ekki með Tahíti-leiðina“

Mynd: RÚV / RÚV
„Við vorum ekki nein útspil – við vorum ekki með Tahítí-leiðina, eða hvað það heitir,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, þegar hún ávarpaði samflokksmenn sína á kosningavöku flokksins í Iðnó í kvöld. „Við bara lögðum okkar spil á borðið og sögðum: Við stöndum fyrir þessi gildi, þetta er það sem við erum og það fylgi sem við fáum snýst um nákvæmlega það og ekki neitt annað.“

Katrín hóf mál sitt á að gera létt grín að því að lækkað hefði verið í greiningu Ólafs Þ. Harðarsonar til að koma ræðu hennar að. Katrín tók fram að enn ætti eftir að birta tölur úr Norðvesturkjördæmi – sem hefur í millitíðinni verið gert – en að hún vildi ávarpa flokksmennina áður en hún færi upp í Útvarpshús í viðtal.

„Ég ætla að vona, þegar það verður búið að telja upp úr kössunum hér í kvöld, að við munum taka sæti í næstu ríkisstjórn og að við munum leiða næstu ríkisstjórn og að við munum gera þetta samfélag betra fyrir fólkið í landinu,“ sagði hún enn fremur í ræðunni, sem má sjá hér að ofan.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi