„Við verðum mjög kúl á sviðinu“

Mynd: Eddi / RÚV

„Við verðum mjög kúl á sviðinu“

25.01.2019 - 17:07

Höfundar

Þeir Fannar Sveinsson og Benedikt Valsson, betur þekktur sem Benni og Fannar úr Hraðfréttum, verða kynnar í Söngvakeppninni í ár, en Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir verður fjarri góðu gamni þar sem hún gengur með tvíbura. Björg Magnúsdóttir verður svo þeim Benna og Fannari til halds og trausts í Græna herberginu.

Benni og Fannar hafa þó verið viðloðandi Söngvakeppnina lengi, tekið viðtöl úti um allan bæ og séð um græna herbergið. „En alltaf í aukahlutverki. Nú erum við aðal!“ segja strákarnir í samtali við Síðdegisútvarpið, hæstánægðir með heiðurinn. „Það er gífurlega góð tilfinning, og mikill heiður að fá að kynna þessa keppni. Aðspurðir um aðra kynna í keppninni sem eru í uppáhaldi hjá þeim, nefna þeir Gísla Marteinn og Loga Bergmann. „En svo erum við búnir að hringja í Simma og Jóa líka, sem voru með Ædolið, og fá punkta hjá þeim.“

Á laugardagskvöld verður kynningarþátturþar sem þátttakendur í Söngvakeppninni 2019 verða kynntir til leiks og spiluð brot úr lögunum tíu sem eiga að heilla þjóðina. Undankvöldin verða svo í Háskólabíói 9. og 16. febrúar, en tvö atriði af fimm frá hvoru kvöldi komast áfram í úrslitin sem verða í Laugardalshöllinni 2. mars.

Ragnhildur Steinunn hefur hins vegar verið allt um lykjandi í útsendingu Söngvakeppninnar í mörg ár. „Jú jú, við leitum til hennar. Hún er legend.“ Mega áhorfendur búast við búningaskiptum? „Eina sem ég get sagt er að við verðum mjög kúl á sviðinu. Þetta verður svaðalegt,“ segir Benedikt og tekur fram að þeim hafi enn ekki bannað að vera með fíflaskap á sviðinu. Þeir segja að lögin tíu sem keppa um að verða framlag Íslands séu mjög fjölbreytt og inni á milli leynist bombur. En eru vond lög inn á milli? Já já, það fylgir. En ég ætla ekkert að segja hvaða lög það eru,“ segir Benni sposkur. 

Rætt var við Benna og Fannar í Síðdegisútvarpinu. Hægt er að hlusta á viðtalið í heildi sinni í spilaranum hér að ofan.

Tengdar fréttir

Tónlist

Svona verður sviðið í Laugardalshöll

Tónlist

Á annað hundrað lög bárust í Söngvakeppnina