Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Við þurfum að taka umræðuna um þetta mál“

02.03.2016 - 09:04
Mynd: RÚV / RÚV
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að svo virðist vera að íslenskt samfélag geti ekki bæði hugsað um hælisleitendur og flóttamenn og þá sem ekki eiga þak yfir höfuðið. „Það er fólk sem býr í bílum, það er fólk sem býr í skúrum. Hvar ætlum við að koma þessu fólki fyrir? Eigum við ekki að hugsa um bræður okkar og systur? Ég kem um allt land og allt mitt kjördæmi og alls staðar vantar húsnæði.“

Þetta kom fram í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Ásmundur var gestur þáttarins ásamt Semu Erlu Seedar, formanni framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, til að ræða ummæli sem Ásmundur lét falla á Alþingi í gær.

Ræðan vakti hörð viðbrögð, meðal annars hjá flokksfélögum Ásmundar í Sjálfstæðisflokknum. Í þeim hópi var Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis sem sagði þetta á Facebook-síðu sinni.

Úr stefnu Sjálfstæðisflokksins: "Hafa skal mannúðarsjónarmið og skilvirkni að leiðarljósi í málefnum hælisleitenda. Móttaka flóttamanna er sjálfsögð. " Bara ef einhver er ekki með þetta á hreinu.

Posted by Unnur Brá Konráðsdóttir on 1. mars 2016

Ásmundur sagði í Morgunútvarpinu að kveikjan að þessari ræðu hans hafi verið mál hælisleitanda á Kjalarnesi sem hótaði að kveikja í sér.  Hann sagði nauðsynlegt að skoða hvernig Íslendingar tækju á móti flóttamönnum - það gengi ekki að að láta fólk vera hér á Íslandi í tvö til fjögur ár, stofna jafnvel fjölskyldu og senda það síðan heim. „Mér finnst slík vinnubrögð óþolandi og ég er á móti slíkum vinnubrögðum.“

Hann sagðist ekki hafa verið að fullyrða neitt í ræðu sinni heldur eingöngu að varpa fram þeirri skoðun sinni að kanna þyrfti hvort Schengen-landamærasamstarfið tryggði það öryggi sem „við viljum að landamæri geri.“ Mikilvægt væri að taka umræðu um þetta mál og hugsa lausn sem væri best fyrir Ísland. 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ásmundur veltir málum af þessu tagi fyrir sérá opinberum vettvangi. Í janúar í fyrra velti hann upp þeirri spurningu á Facebook-síðu sinni hvort bakgrunnur þeirra múslima sem hér byggju hefði verið skoðaður.

Í samtali við fréttastofu vegna færslunnar sagðist Ásmundur ekki vilja hingað fólk sem hefði stundað skæruhernað eða hryðjuverk - engu máli skipti hvaða trúar fólk væri. „Ég er ekki að ásaka neinn hérna, ég er bara að vara við þeirri hættu sem hefur fylgt mörgum hópum og við Íslendingar þurfum sem þjóð að taka umræðu hvernig við getum boðið þessu fólki að búa hérna í sátt við okkar umhverfi.“   

Mynd:  / 

Ásmundur sagði í Morgunútvarpinu í morgun að það væri erfitt að taka þessa umræðu - hann væri til að mynda kallaður fáviti af ákveðnum hópi. „Ég er ekki mjög hræddur maður en þegar ég finn viðbrögð fjölskyldunnar, barna og barnabarna minna, eiginkonu og aldraðs föður þá er maður kominn í þá stöðu að maður hugsar hvort maður eigi að hætta að tala um þetta - fólk hagar sér þannig að það er ekki boðlegt að taka þátt í þessu.“

Ásmundur vísaði af þessu tilefni til þess að poppstjörnurnar Stefán Hilmarsson og Eyjólfur Kristjánsson hefðu verið spurðir í útvarpsþætti á Bylgjunni út í málefni flóttamanna . „Þeir sögðust ekki þora, stöðu sinnar vegna, að segja sína skoðun því þá væru þeir að dæma sig úr leik.“

Ásmundur sagði að stór hluti almennings og gríðarlegu fjöldi eldra fólks væri sammála því að fara þyrfti varlega í þessum málum og Íslendingar þyrftu að spyrja sig hvað þeir vildu taka á móti mörgum hælisleitendum og flóttamönnum. Hann tók þó skýrt fram að liti flóttamenn öðrum augum en hælisleitendur og sagðist vita hvernig vandamál væru í kringum suma hælisleitendur í Keflavík. „Þarna kemur fólk sem er að villa á sér heimildum  og er jafnvel búið að steikja á sér puttana til að ekki sé hægt að finna fingraförin. Þarna er misjafn sauður í mörgu fé.“

Ásmundur sagðist hafa áhyggjur af íbúðarhúsnæði og hvernig væri hægt að taka á móti fleira fólki þegar dæmi væri um að fólk hér á landi byggi í bílum og í skúrum. Svo virtist, eins og staðan væri í dag,  að Ísland gæti ekki gert bæði. „Eigum við ekki að hugsa um bræður okkar og systur? Ég kem um allt land og allt mitt kjördæmi og alls staðar vantar húsnæði.“

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér að ofan.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV