Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Við þurfum að gangast við því hver við erum“

Mynd: Einka / Einka

„Við þurfum að gangast við því hver við erum“

26.09.2017 - 16:30

Höfundar

Þjóðfræðingurinn Pétur Húni Björnsson er á því að Íslendingar þurfi að gangast við hefðum gamallar íslenskrar matargerðar og hætta að skammast okkar fyrir hana. Hann segir það vera algjöran óþarfa að tala niður arfleifð aldanna.

„Það fylgir því að vera þjóðfræðingur að vera með höfuðuð aftur í tímanum,“ segir Pétur Húni. Hann fór nýlega til Edinborgar á vinnustofu þar sem menningararfur og sjálfsmynd evrópuþjóða var til umfjöllunar og eftir það kviknuðu hugrenningar um það hvernig Íslendingar umgangast matarhefðir fortíðar og tala um þær.

Spjallað yfir haggis

„Þarna hófust, yfir skoskum morgunverði með haggis og öllum græjum, umræður um mat. Fljótlega var ég spurður út í mat á Íslandi og ég svaraði því til að Íslendingar borði það sem þeim sýnist, við séum með sambræðing amerískra áhrifa og áhrifa frá miðjarðarhafinu. Svo var farið að fiska eftir einhverju um „íslenska hefðbundna matinn“ og ég fann strax að mér var ætlað að fara að tala um „eitthvað ónýtt og ólystugt.“ Það var svona aðeins verið að fiska, en ég ákvað að fara ekki að tala eftir þeim nótum heldur að tala frekar um íslenskar hefðir á forsendum skandinavískrar eða Norður-evrópskrar matarmenningar,“ segir Pétur. Hann segir að þá hafi komið í ljós að margt af því sem hann lýsti hafi alls ekki komið fólki á óvart heldur rímað ágætlega við það sem fólk þekkti frá heimalöndum sínum.   

Mynd með færslu
 Mynd: Sigríður Helgadóttir
Er Þorramatur afsökun Íslendinga fyrir að detta í það á þorrablótum?

Útlendingar kannast við margt 

Pétur Húni er á því að við séum ekki eins mikið sér á parti, hvað varðar matarmenningu, og margir vilja vera láta. Fólk í Evrópu þekki til dæmis vel að gjörnýta allar afurðir skepnanna, rétt eins og íslenska sauðkindin var gjörnýtt um aldir. Eins þekki margir vinnsluaðferðir: það að reykja, þurrka eða setja í súr.

„Mér tókst þarna að komast í gegnum langt samtal um íslenskan mat og aldrei var nefnt að hann væri ógeðslegur. Þannig tókst mér til dæmis að tala um hákarlinn með þessum hætti, sem auðvitað var úrslitastund í þessu samtali.“

Feimni inngróin

Pétur Húni er á því að margir Íslendingar séu feimnir við gamlar matarhefðir. „Við borðum þennan mat á þorrablóti einu sinni á ári og oft er hann jafnvel hafður sem fjarvistarsönnun úti á borðsenda á meðan fólk neytir nautakjöts og finnur sér afsökun til skemmta sér á þorrablóti.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Er skyr í dag í raun og veru skyr?

Margt því miður talað niður

Þessa feimni vill Pétur Húni tengja við innbyggða minnimáttarkennd landsmanna. „Ég held að rótin sé minnimáttarkennd sem við erum öll haldin. Í gegnum tíðina hefur verið rekinn mjög harður áróður gegn mörgu í íslenskri menningu. Íslensk þjóðlög hafa nánast aldrei notið sannmælis, rímnakveðskapur hefur oft þótt algjört drasl og íslensk húsagerðarlist líka. Torfbæjirnir voru þannig úthrópaðir sem pestarbæli sem ætti helst að rífa hratt og örugglega. Það er eins fólk átti sig ekki á því að það geti verið stollt af einhverju í upprunanum og fólk er líka hrætt við það. Ég held að á þessum tímum núvitundar og löngunar fólks til að tengjast sjálfu sér og náttúrunni, þá ættum við að gera meira af því að fletta upp í Matur og drykkur eftir Helgu Sigurðar og læra til dæmis að gera alvöru skyr.“

Þetta spjall um matarhefðir við Pétur Húna Björnsson í Víðsjá má heyra í heild í spilaranum hér að ofan.