„Við teljum að þessu máli sé lokið“

12.03.2015 - 18:24
Mynd: Anton Brink RÚV / RÚV Anton Brink
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, segir að íbréfinu sem hann afhenti formanni ESB í Slóvakíu í kvöld, hafi komið fram að ekki sé lengur litið á Ísland sem umsóknarríki og að viðræður verði ekki teknar upp á nýjan leik. „Við teljum að þar með sé þessu máli lokið,“ segir Gunnar Bragi við RÚV.
Ríkisstjórnin hefur samþykkt að hún hafi ekki í hyggju að taka upp aðildarviðræður við Evrópusambandið á nýjan leik. Ríkisstjórnin lítur svo á að Ísland sé ekki lengur í hópi umsóknarríkja og hefur farið þess á leit við ESB að sambandið taki hér eftir mið af því. 

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra afhenti nú rétt klukkan sex að íslenskum tíma formanni ESB, sem er utanríkisráðherra Lettlands, bréf þess efnis. Þetta kom fram í kvöldfréttum útvarps

Gunnar Bragi sagði í samtali við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur, fréttamann, skömmu fyrir klukkan sex að fundurinn í kvöld hefði verið mjög góður, báðir aðilar hefðu skilning á þessari stöðu og þetta hefði verið leið sem væri eðlileg. „Þeir þekkja allt ferlið sem hefur verið í gangi á Íslandi. Umsóknin er lögð til hliðar og við verðum ekki lengur merkt sem umsóknarríki hjá ESB.“

Gunnar Bragi segir að þetta þurfi ekki neitt samþykki - þetta sé tilkynning frá íslenskum stjórnvöldum og við óskum bara eftir því frá ESB að þeir að þeir sýni þessu skilning. „Bréfið útskýrir bara stöðuna - í hvaða farvegi málið hefur verið og í hvaða farvegi það hefur verið í dag. Það sjá það allir að málið er fyrir löngu komið á endastöð.“

Gunnar Bragi segir að viðræðurnar hafi verið í strandi og raunar búnar- ekkert hafi verið gert í langan tíma. „Við erum bara að loka þessu ferli sem þessar viðræður voru. Við höfum átt í viðræðum við ESB sem hefur leitt til þess að við sendum þetta bréf.“

Gunnar Bragi telur að það sé í valdi framkvæmdavaldsins að skýra stefnu ríkisstjórnarinnar. Þetta hefur verið kynnt ESB fyrir löngu síðan, umfjöllunin hafi verið mikil á síðasta þingi. „Síðasta ríkisstjórn sótti um aðild að ESB og byggði það á tilmælum frá þinginu - það þing er ekki til staðar og sá meirihluti sem var að baki álitinu á sínum stað. Það er kominn ný ríkisstjórn með nýja stefnu og við þurftum líka að svara ESB um hvert við vildum fara.,“ segir Gunnar Bragi og rifjar upp að strax 2013 hafi verið kallað eftir stefnu Íslands. „Aðalatriðið hér er að þessu umsóknarferli er lokið og við erum ekki lengur umsóknarríki.“

Fjallað verður ítarlega um málið í Kastljósi í kvöld.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi