Lestin slóst í för með Palla og skyggndist bak við tjöldin í undirbúningnum en hann var önnum kafinn að rífa efni í ræmur þegar Önnu Gyðu Sigurgísladóttur bar að garði. „Það eru fjórir dansarar sem binda mig á sviðinu með þessu,“ segir Páll Óskar. „Ég sæi Björgvin Halldórsson í anda að rífa niður efni til að láta binda sig í,“ bætir hann sposkur við. Hann lýsir tónleikunum sem ferðalagi um ævistarf sitt á tveimur klukkutímum og fólk sem rýni í textana kunni að komast að ýmsu um lífshlaup hans, en lögin á tónleikunum spanna allan ferilinn frá 1991 til 2017. „Ég hef fengið að vera alveg „fuct“ og rifinn og tættur, svona eins og flest allt annað fólk. Ég hef fengið að botna mig, en svo náð með aðstoð góðra manna að spyrna mér upp á yfirborðið aftur.“
Palli segir upphaf tónleikanna megar rekja til þess að starfsmenn Senu hafi nálgast hann eftir að hafa haldið tónleika með Justin Timberlake og Bieber, og forvitnast hvort hægt væri að setja upp tónleika af svipaðri stærðargráðu með íslenskum listamanni. „Ég sagði bara „vitið þið, ég skal pakka þessu saman fyrir ykkur. Við skulum brjóta blað í Íslandssögunni, pakka blaðinu saman, setja það í umslag, líma fyrir og senda til Beyoncé!““
Páll Óskar segir að í sínum huga sé tónleikar og ball tvennt ólíkt, hann hafi spilað á óteljandi böllum og hafi gaman að – en mun meira metnaður sé á bak við hið fyrrnefnda. „Tónleikar hjá mér eru hardcore vinna með gríðarlegum undirbúningi og yfirsetu. Tæknifólkið er búið vera með sveittan skallann að reyna ráða fram úr öllum mínum kröfum.“ Þá hafi það verið mikilvægt að ráða rétta fólkið í hópinn en um 100 manns koma að tónleikunum. „Þetta hefur gengið eins og smurð vel. Það er þriðjudagur núna og ég hef engar áhyggjur af þessu sjói.“
Tónleikagestir verða virkir þátttakendur í sýningunni sjálfri en hver áhorfandi fær armband sem er beintengt við ljósborðið hjá ljósamanninum. „Þetta eru LED armbönd með þartilgerðum batteríum sem virka þannig að hver áhorfandi verður eins og punktur í litasjónvarpi og ljósamaðurinn getur keyrt vídjó og grafík á áhorfendunum sjálfum.“