„Við megum spyrja að því sem okkur sýnist“

24.09.2015 - 09:11
Mynd með færslu
 Mynd: Arnþrúður Karlsdóttir
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpskona og eigandi Útvarps Sögu, vill að Snæbjörn Ragnarsson, söngvari Ljótu hálfvitanna, axli ábyrgð á því að kalla hana og samstarfsmenn hennar á Útvarpi Sögu mannhatara. Ummælin séu ærumeiðandi.

Á laugardaginn tilkynnti hljómsveitin Ljótu hálfvitarnir að Útvarpi Sögu væri framvegis óheimilit að flytja tónlist hennar. Tilefnið var könnun á vef útvarpsstöðvarinnar, þar sem spurt var: Treystir þú múslimum?

Hér með kunngjörist að ljósvakamiðlinum Útvarpi Sögu er með öllu meinað að spila nýja lagið okkar, Hosiló, eða nokkuð...

Posted by Ljótu hálfvitarnir on Saturday, 19 September 2015

Bubbi Morthens fetaði svo í fótspor Ljótu hálfvitanna með yfirlýsingu á Facebook og bannaði einnig Útvarpi Sögu að spila lögin sín. „Bann þetta gildir svo lengi sem Útvarp Saga heldur áfram að ala á mannhatri og fordómum,“ sagði Bubbi meðal annars í yfirlýsingunni.   

Arnþrúður Karlsdóttir ræddi málið í Morgunútvarpsinu á Rás 2 í morgun. Hún sagðist enga tilkynningu hafa fengið frá Ljótu hálfvitunum eða Bubba Morthens, þess efnis að útvarpsstöðin megi ekki leika tónlist þeirra. Það þykir henni einkennilegt. „Þessi skilaboð hef ég ekki fengið. Mér finnst allt í lagi að þeir sem stíga fram og ásaka heilt fyrirtæki - útvarpsstöð í þessu tilviki - um svo alvarlega hluti sendi það til okkar líka og óski eftir því með formlegum hætti að þeirra lög séu ekki spiluð. Við erum ekki í netheimum, við erum í raunheimum.“

Hún segir ekki miklu breyta fyrir stöðina, hvort hún megi spila lög Ljótu hálfvitanna eða ekki. „Ljótu hálfvitarnir voru ekki á playlista stöðvarinnar, svo það er svo sem ekki neinu að hætta."

Þá segir hún skyldu fjölmiðla að gagnrýna trúarbrögð, sama hvað þau heita. „Það hlýtur að þurfa að draga fram allar hliðar á öllum svona málum sem viðkoma íslensku þjóðlífi. Við getum ekki verið einhver kópía af því sem öðrum stöðvum eða öðrum fjölmiðlum finnst. Við bara höldum okkar striki. Ég ítreka það að við látum ekki kúga okkur,“ segir hún og bætir við að hún telji að Snæbjörn Ragnarsson, söngvari Ljótu hálfvitanna, þurfi að axla ábyrgð á orðum sínum. „Hann viðhefur orð sem eru svívirðileg og andstyggileg og sakar okkur um mannhatur. Mér finnst ekki að hann geti stigið fram og kallað okkur mannhatara og þar fram eftir götunum án þess að bera einhverja ábyrgð á því. Þetta eru ærumeiðandi ummæli gagnvart okkur.“

Hólmfríður Helga Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi