Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Við megum ekki líta undan,“ sagði Katrín

08.09.2015 - 20:41
Mynd: Skjáskot / RÚV
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, sagði að stjórnmálamenn gætu ekki lengur horft fram hjá þeirri kröfu almennings að langtímasjónarmið væru höfð að leiðarljósi í öllum þeirra störfum. Hún sagði ræðu forsætisráðherra bera þess merki að hann héldi að íslenskt tímatal hefði hafist árið 2013.

Þetta væri ljóður á mörgum stjórnmálamönnum sem töluðu stundum eins og þeir væru upphaf og endir alls. Katrín sagði þetta mögulega skýringuna á bágu gengi hefðbundinna stjórnmálaflokka - menn hlytu að geta fallist á að ástæðan fyrir góðum efnahagsárangri Íslands væri samstillt átak því það væri slík samstaða sem skilaði árangri „en ekki kollsteypustjórnmál sem forsætisráðherra aðhyllist.“

Katrín rifjaði upp heimsókn sína í grunnskóla í Árneshreppi þar sem hún hitti ungan nemanda sem þráði ekkert heitar en að rannsaka sögu Íslands. Katrín sagðist sjálf eiga son sem vildi verða ráðuneytisstarfsmaður. „Samkvæmt bókinni „bekkurinn minn“ frá árinu 1984 ætlaði ég mér að verða poppstjarna en til vara skurðlæknir.“

Katrín gerði í framhaldinu vanda flóttamanna frá Sýrlandi og ekki síst þeirra barna sem kæmust aldrei á leiðarenda heldur drukknuðu á ferð sinni yfir Miðjarðarhafið og reka upp í fjörur á sólströnd. „Og einhverjir kunna að vilja afgreiða þetta mál þannig að það megi ekki eingöngu hugsa um þá sem birtast á fréttamyndum [...] veruleiki þess er lýsandi fyrir veruleika margra og við megum ekki brynja okkur fyrir slíkum myndum - við megum ekki líta undan,“ sagði Katrín.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV