Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Við komum ekki öllum titlunum þínum fyrir“

15.03.2019 - 07:05
Mynd:  / 
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar-, nýsköpunar- og dómsmálaráðherra, var aðeins titluð dómsmálaráðherra í Kasljósi í gærkvöld. „Við komum ekki öllum titlunum þínum fyrir,“ sagði þáttarstjórnandi. Sú ákvörðun að Þórdís bæti við sig ráðuneyti hefur orðið mörgum tilefni til vangaveltna. Þó er staðreyndin sú að margir ráðherrar hafa farið með fleiri en eitt og jafnvel fleiri en tvö ráðuneyti. Áður fyrr fór dóms- og kirkjumálaráðherra iðulega með annað ráðuneyti líka.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tók að sér dómsmálin um rúmlega þriggja mánaða skeið árið 2014 þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir var innanríkisráðherra. Þá voru dómsmálin færð tímabundið milli ráðherra vegna lekamálsins. 

Nokkrum árum áður varð Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. Það varð til við sameiningu tveggja ráðuneyta, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og viðskiptaráðuneytisins. Nokkrum árum áður voru sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið sitt hvort ráðuneytið með sitthvorn ráðherrann. 

Guðbjartur Hannesson var velferðarráðherra á seinni hluta kjörtímabilsins 2009 til 2013. Það varð til við sameiningu heilbrigðisráðuneytisins og félags- og tryggingamálaráðuneytisins sem áður höfðu haft sitthvorn ráðherrann.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ólafur Jóhannesson var dóms- og kirkjumálaráðherra samhliða því að vera forsætisráðherra.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafði eigin ráðherra frá 1999 til 2010. Fram að því hafði ráðherra sem fór með ráðuneytið alla jafna stærra ráðuneyti með höndum líka og jafnvel stærra. Ólafur Jóhannesson og Hermann Jónasson voru forsætisráðherrar samhliða því að veita dóms- og kirkjumálaráðuneytinu forstöðu. Bjarni Benediktsson var um skeið utanríkisráðherra, menntamálaráðherra og dóms- og kirkjumálaráðherra. Öðru sinni var hann dómsmálaráðherra og heilbrigðisráðherra samtímis.

Jón Sigurðsson var á tímabili ráðherra dóms- og kirkjumála, iðnaðar, viðskipta og Hagstofunnar.

Á tímabili var algengast að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefði eigin ráðherra til að leysa vanda við stjórnarmyndun, til að tryggja nógu marga stóla. Þetta gerðist þegar Gunnar Thoroddsen klauf Sjálfstæðisflokkinn til að mynda stjórn með Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi 1980. Þá var Friðjón Þórðarson dóms- og kirkjumálaráðherra án þess að fara með annað ráðuneyti. 1989 fengu Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag Borgaraflokkinn inn í stjórn til að tryggja meirihluta á þingi. Þá varð Óli Þ. Guðbjartsson dóms- og kirkjumálaráðherra án annars ráðuneytis. Reyndar vildi þá svo til að Júlíus Sólnes varð ráðherra Hagstofunnar, sem hafði ekki áður haft eigin ráðherra sem ekki fór með annað ráðuneyti.

Yfirlit um ríkisstjórnir og ráðherra má finna á vef stjórnarráðsins og á alfræðivefnum Wikipedia.

Mynd með færslu
 Mynd:
Jón Sigurðsson fór á tímabili með fjögur ráðuneyti - í einu.