Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Við hættum ekki fyrr en við finnum þá“

27.12.2018 - 12:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lögreglan hvetur þá sem rændu fatlaðan mann í Reykjavík í nótt til þess að gefa sig fram. Vitað er hverjir voru að verki og er þeirra nú leitað. „Við hættum ekki fyrr en við finnum þá,“ segir lögreglufulltrúi.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar rán á heimili fatlaðs manns í Reykjavík í nótt. Maðurinn er á sextugsaldri og er í hjólastól. Ránið var framið upp úr klukkan tvö í nótt.

„Þessi maður býr í Hátúninu,“ segir Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. „Það er bankað á glugga hjá honum og hann fer út á pall sem er við svaladyrnar, á stólnum, til þess að opna. Um leið og hann er búinn að opna hurðina koma tveir aðilar hlaupandi og velta stólnum við þannig að maðurinn liggur eftir á pallinum fyrir utan íbúð sína. Þrír aðilar hlaupa inn í íbúðina og stela þar tölvu og fleiri verðmætum á meðan sá í hjólastólnum lá eftir.“ 

Þetta voru tveir karlar og ein kona ekki satt?

„Jú.“

Þekkti maðurinn eitthvað þetta fólk?

„Hann þekkir eitt þeirra og við erum komin með vitneskju um hverjir voru þarna að verki.“

Og hafið þið haft hendur í hári þessa fólks?

„Ekki eins og er. Það er bíll núna að leita að því. En það væri einfaldast ef þessir aðilar gæfu sig bara fram vegna þess að við vitum hverjir voru að verki. Við hættum ekki fyrr en við finnum þá.“

Finnst ykkur þetta alvarlegra en venjulegt rán vegna þess að maðurinn er í hjólastól?

„Já. Ekki spurning.“

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV