Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Við erum ekkert ofsalega áhyggjufullir“

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli, segir að óvissustigi verði haldið að minnsta kosti þar til flugi vísindamanna yfir Öræfajökul lýkur. Almannavarnir lýstu yfir óvissustigi í gær í samráði við lögreglustjórann á Suðurlandi. Fundur verður í Reykjavík síðdegis eftir að mælingar hafa verið gerðar.

„Við erum ekkert ofsalega áhyggjufullir en á meðan við erum að skoða þá fylgjum við þessum stigum Almannavarna og förum á óvissustig,“ segir Sveinn Kristján. Engin rýmingaráætlun sé í gangi. Ekkert hafi verið virkjað nema eftirlitskerfið. Þannig hafi lögreglan á Suðurlandi verið með vakt við Kvíá í nótt. 

„Við erum í góðu sambandi við vísindamenn. Það er enginn stórviðbúnaður í gangi og ekkert stórt í gangi. Við erum að skoða þennan ákveðna stað og vitum ekki alveg hvað er að gerast.“

Sveinn Kristján segir íbúa á svæðinu ekki í sérstakri viðbragðsstöðu. „Eins og ég segi þá er ekki alveg vitað hvað er í gangi þarna. Mögulega er þetta einhver atburður sem er búinn. Mögulega er vatnið í katlinum að skila sér í rólegheitum niður Kvíá og það skýri lyktina. Þetta er allt verið að skoða.“

Sveinn Kristján segir að þegar flugi yfir Öræfajökul lýkur síðdegis verði fundur í Reykjavík þar sem farið verði yfir stöðuna. Ákvörðun verði þá tekin um hvort haldið verði áfram óvissustigi eða hvort því verði aflétt. 

Hægt er að horfa á allt viðtal Jóhanns Bjarna Kolbeinssonar við Svein Kristján Rúnarsson í spilaranum hér fyrir ofan. 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV