„Hugmyndin er að sýna á áhrifaríkan hátt hvernig við berum oft harm okkar í hljóði. Það getur verið erfitt að horfa á alla barnavagnana og óléttu konurnar. Við viljum sýna að það er okkar þrá að geta gengið með barnavagn,“ segir Ásta Sól Kristjánsdóttir, varaformaður Tilveru. Hún segir ófrjósemi enn vera feimnismál og að samtökin vilji hvetja fólk til að rjúfa þögnina.
Funduðu með ráðherra í dag
Talið er að einn af hverjum sex sem þráir að eignast barn glími við ófrjósemi. Greiðsluþátttöku ríkisins var breytt árið 2011 þannig að önnur til fjórða meðferð er niðurgreidd í stað fyrstu til fjórðu áður. Þingsályktun var samþykkt síðasta haust um aukinn stuðning vegna tæknifrjóvgunarmeðferða. Þá var heilbrigðisráðherra falið að endurskoða reglur um greiðsluþátttöku ríkisins vegna tæknifrjóvgunarmeðferða fyrir árslok 2016. Í ályktuninni er kveðið á um að gætt verði að því að greiðsluþátttaka nái til fyrstu glasafrjóvgunarmeðferðar og sé óháð því hvort pör eða einstaklingar eigi barn fyrir.
Fulltrúar Tilveru funduðu með Óttari Proppé, heilbrigðsráðherra í dag. „Á fundinum fengum við þær upplýsingar að ekki er gert ráð fyrir því á fjárlögum að breytingin nái í gegn á þessu ári. Ráðherra gaf okkur þó einhverja von. Við bindum sterkar vonir við að þetta komi inn árið 2018.“