VG: Vilja eyða minna í steypu og meira í fólk

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Gerum enn betur í Reykjavík er eitt slagorða Vinstri grænna fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Líf Magneudóttir borgarfulltrúi og oddviti þeirra vill eyða aðeins minna í steypu en verja miklu meira í fólk. 
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV

Frambjóðendur Vinstri grænna kynntu stefnu sína í garðinum við Ásmundarsafn við Sigtún eftir hádegi. Vinstri græn vilja að allir hafi jöfn tækifæri til lífs og leiks og vilja koma því til leiðar með sterkara menntakerfi og velferðarþjónustu, öruggu húsnæði, góðum almenningssamgöngum og borgarskipulagi sem taki tillit til þess mannlega en líka til náttúrunnar og umhverfisins. 

„Við ætlum að halda áfram að auka ráðstöfunartekjur barnafjölskyldna í borginni og það gerum við meðal annars með því að lækka gjaldskrár og einnig í velferðarþjónustunni. Og svo þurfum við að leysa mannekluvandann,“ segir Líf Magneudóttir oddviti VG í Reykjavík. 

Hún segir að það verði gert með því að skoða sérstaklega tekjulægstu hópanna, sem sinna þessum störfum, til dæmis stórar kvennastéttir, endurskoða þurfi starfskjarastefnu og líka aðbúnað.

Róttækar aðgerðir gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum og femínískar áherslur eru málaflokkar sem vinstri græn leggja mikla áherslu á. Þá eru húsnæðismálin eitt af stóru málunum hjá VG og vilja vinstri græn endurreisa verkamannabústaði í samvinnu við verkalýðsfélögin: 

„Og það þýðir að borgin þarf að vera meiri gerandi á húsnæðismarkaði og við þurfum líka að koma hérna upp ásættanlegum leigumarkaði og tryggja leigjendur fyrir því að leigan hækki ekki úr öllu valdi og það getum við meðal annars komið með ríkinu.“

Ef maður lítur svona á ykkar lista og líka annarra stjórnmálaflokka þá sér maður nú strax að þetta kostar eitthvað, hafið þið sett einhvern verðmiða á ykkar?

„Við höfum á kjörtímabilinu látið tekjuaukann alltaf ganga inn í velferðarmál og menntamál og við ætlum að halda áfram að gera það. Það þýðir að við erum kannski ekki að fara að ráðast í Miklubraut í stokk alveg strax, ég veit það ekki. En við segjum aðeins minna í steypu og miklu meira í fólk.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi