VG langstærst í nýrri könnun 365-miðla

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vinstrihreyfingin Grænt framboð bætir enn við sig fylgi, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis, en Björt framtíð og Viðreisn hverfa af þingi eftir kosningarnar, samkvæmt sömu könnun. Samkvæmt henni styðja nær 29 af hverjum hundrað Vinstri græn, sem fengju samkvæmt því 20 þingmenn. Rúm 22 prósent þeirra sem afstöðu tóku segjast styðja Sjálfstæðisflokkinn, sem gefur fimmtán þingmenn.

Píratar koma næstir með 11,4 prósenta fylgi og átta þingmenn, og Samfylkingin er heldur að sækja í sig veðrið með 10,5 prósenta stuðning, sem þýðir 7 manns á þing.

Tæp níu prósent lýsa stuðningi við Miðflokkinn, sem gæti skilað sér í sex þingmönnum, Flokk fólksins styðja tæp sex prósent, sem gefur fjóra þingmenn, og Framsóknarflokkurinn fengi þrjá þingmenn, með fylgi upp á hálft sjötta prósent.

Viðreisn og Björt Framtíð mælast með um það bil þriggja prósenta fylgi hvor flokkur um sig og koma því ekki manni á þing, verði niðurstöður kosninganna í samræmi við þessa könnun.

Könnunin var gerð dagana 2. og 3. október. Hringt var í 1.354 uns náðst hafði í 800 manns. 62,1 prósent þeirra sem náðist í tóku afstöðu, en um níu prósent hugðust annað hvort sitja heima eða skila auðu, ellefu prósent höfðu ekki gert upp hug sinn og nær átján prósent neituðu að svara. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi