Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vextir, stjórntæki og kynslóðabil

09.11.2018 - 16:30
Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir / Þórgunnur Oddsdóttir
Eftir lága vexti víða á Vesturlöndum hafa vextir aftur farið hækkandi, einnig á Íslandi. Um leið eru seðlabankar í naflaskoðun um hlutverk sitt og viðmiðanir. Seðlabankinn hækkaði í vikunni skammtímavexti um 0,25 prósentur, í 4,5 prósent. Þetta er gert á þeim grundvelli að þrátt fyrir vísbendingar um hægari vöxt á seinni hluta ársins spáir bankinn nú 4,4 prósenta hagvexti, sem er heilu prósentustigi yfir spá bankans frá í ágúst.

Bankinn býst þó við að hægja muni á hagvexti næstu misseri. Þá er meðal annars horft á verðbólgu, og þá samspil húsnæðisverðs, olíuverðs og gengis krónunnar. Það virðist stefna í meiri verðbólgu en líka að hraðar dragi úr efnahagsumsvifum en áður. En samt, verðbólga hefur lækkað raunvexti, það er muninn milli verðbólgu og vaxta. Ergó, út frá þessum forsendum bankans er það vaxtahækkun.

Raunstýrivextir og margvíslegar breytur

Á fundi Verslunarráðs hnykkti Már Guðmundsson seðlabankastjóri á því að raunstýrivextir væru töluvert lægri en verið hefði. Hann benti á að stundum gæti hækkun skammtímavaxta lækkað langtímavexti.

Það kemur ekki á óvart að vaxtahækkun Seðlabankans sæti gagnrýni. Það eru vissulega margar hliðar á vaxtadæminu, margar breytur sem skipta máli. Tökum tvær þeirra: annars vegar vexti sem stjórntæki, hins vegar vexti út frá sjónarmiði sparifjáreigenda, þar með lífeyrissjóða.

Lágir vextir til örvunar

Vextir eru eitt mikilvægasta stjórntæki í efnahag hverrar þjóðar og þess vegna vekja vaxtabreytingar sífellt umræður. Í kjölfar samdráttar, til dæmis eins og var eftir árásina á Tvíburaturnana í Bandaríkjunum 2001 eða eftir bankahrun og hremmingar víða á Vesturlöndum 2008 voru vextir lækkaðir til að örva efnahagslífið. Lágir vextir eru því undantekningarástand, nokkurs konar sjúkdómsmerki. Merki um að hagkerfið sé ekki í sérlega góðu ástandi.

Áhrifin af seinni vaxtahækkun eftir 2001

Vaxtahækkanir í Bandaríkjunum eftir árásina 2001 hafa auðvitað verið greindar í tætlur. Margir telja að bandaríski seðlabankinn hafi verið of seinn og of smátækur í vaxtahækkunum eftir þessa örvunaraðgerð. Sein viðbrögð bankans hafi svo átt þátt í útlánagalskapnum sem síðan leiddi til fjármálahrunsins í Bandaríkjunum og víðar 2008.

Áhrifin af langvarandi lágum vöxtum

Og einmitt af því að vaxtalækkun er sígild aðgerð til að reyna að lífga upp á dauflegt hagkerfi þá eru ein rökin gegn því að draga vaxtahækkun þau að þar með vanti tæki ef ástandið versni enn. Ef nafnvextir eru komnir niður undir núll en hagkerfið enn dauflegt þá er ekkert tæki til að efla það. Það hefur reynt á þetta víða undanfarið, til dæmis í Sviss, Svíþjóð, Danmörku og hjá Evrópska seðlabankanum þar sem vextir hafa verið undir núlli, sem er svolítið önnur en áhugaverð saga.

En já, ýmsir hagfræðingar verða órólegir ef vextir eru viðvarandi alveg í botni af því þá er ekkert tæki til að lífga við líflítið hagkerfi.

Verðbólga og angist – vegna hagsmuna sparifjáreigenda

Þá er það hitt atriðið, vextir og sparifjáreigendur. Það er mjög athyglisvert að víða á Vesturlöndum vekur hin minnsta verðbólga upp óskaplega angist. Það endurspeglar að þar eru það hagsmunir sparifjáreigenda og lífeyrissjóða sem vega þungt. Áratugur lágra vaxta í Þýskalandi hefur til dæmis lækkað vænt eftirlaun heillar kynslóðar.

Vextir og andstæðir hagsmunir eldri og yngri kynslóðar

Vaxtahækkun vegna verðbólgu og verðbólguvæntinga styrkir stöðu þeirra sem lána bönkunum fé til útlána, það eru sparifjáreigendur. Í grófum dráttum eru það eldri borgara sem eiga almennt meira sparifé. Yngra fólk er skuldarar. Þannig að vextir skipta líka máli þegar kemur að því að meta hagsmuni yngri og eldri kynslóðarinnar. Eldra fólk hefur hagsmuni af góðum vöxtum, afkomendurnir vilja að vextir séu sem lægstir af því þeir eru væntanlega með húsnæðislán.

Þetta tvennt – að tryggja að vextir séu stjórntæki sem bíti og að vextir eru ekki það sama fyrir eldra og yngra fólk – skiptir máli þegar vextir eru vegnir og metnir. Hvaða málstað þessi sjónarmið svo styrkja á hverjum tíma er svo matsatriði.

Áhrifin af víðtækum íhlutunum seðlabanka eftir 2008

Samdrátturinn eftir 2008 leiddi víða til íhlutunar seðlabanka með öðrum og meira afgerandi hætti en áður hafði sést, það er til að bjarga bönkum um lausafé. Önnur og áhugaverð saga. Einmitt vegna þess að seðlabankar léku víða veigamikið hlutverk í viðreisninni eftir 2008, bæði með vaxtalækkunum og innspýtingu lausafjár, er víða verið að ræða hlutverk þeirra.

Viðmið Seðlabankans eru ekki á reiki

Og þá til dæmis hverjar eigi að vera viðmiðanir í vaxtastigi. Englandsbanki hefur til dæmis gert lýðum ljóst að í viðbót við verðbólgu skipti atvinnustig máli þó þeir hafi svo í raun aðeins vikið frá því. Með vaxtahækkun nú er klárt að Seðlabankinn einblínir á verðlagið og verðbólguna.

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir