Vestnorrænn samstarfssamningur veldur núningi

Mynd: Mynd frá utanríkisráðuneytin / Utanríkisráðuneytið
Danir hafa ógilt ógilt samning Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga um samstarf landanna sem gerður var í haust. Danir líta svo á að samningurinn taki til utanríkismála, sem þeir fara með í ríkjasambandinu. Málið hefur valdið núningi í samskiptum Dana við Færeyinga og Grænlendinga. Anders Samuelsen, utanríkisráðherra Dana, tilkynnti að hann hefði ógilt samningin um aukið samstarf landanna sem var undirritaður á utanríkisráðherrafundi í haust.

Danir tilkynna ógildingu samningsins

Anders Samuelsen, utanríkisráðherra Dana, tilkynnti í síðustu viku að hann hefði ógilt samninginn sem um aukið samstarf Færeyja, Grænlands og Íslands og var undirritaður í Reykjavík 1. september. Samuelsen segir að Færeyingar og Grænlendingar hafi ekki umboð til að gera slíkan samning, hann taki til utanríkismála og sé andstæður lögum sem gildi um ríkjasamband Danmerkur, Færeyja og Grænlands og samrýmist ekki stjórnarskrá Dana. 

Rammasamningur eða eitthvað meira

Íslensk stjórnvöld líta á samninginn sem almennan rammasamning að sögn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra. Formfest sé almennt þríhliða samstarf landanna þriggja. Guðlaugur Þór bætir við: „Hann hefur ekkert þjóðréttarlegt gildi og ganga efnisleg ákvæði hans ekki lengra en í öðrum samningum á milli landanna, t.d. Hoyvíkursamningnum." 

Auk almennra ákvæða um samstarf er kveðið á um árlegan fund utanríkisráðherra Færeyja, Grænlands og Íslands og skulu þeir vera í tengslum við fundi Vestnorræna ráðsins þegar það er mögulegt. Þá er komið á fót vinnuhópi embættismanna, sem m.a. er ætlað að hafa yfirsýn yfir núverandi samstarf, gera tillögur um aukið samstarf og vinna að því að ryðja úr vegi viðskiptahindrunum.

Ógildingin vakti athygli á samningnum

Þessi samningur vakti enga sérstaka athygli þegar hann var undirritaður og það var ekki fyrr en danski utanríkisráðherra, Anders Samuelsen, ógilti hann í síðustu viku að augu fleiri beindust að honum. Þessi viðbrögð komu Poul Michelsen á óvart, hann fer með utanríkismál í færeysku stjórninni. Michelsen segir málið erfitt. Hann hefur sama skilning og Guðlaugur Þór að ákvæði samningsins gangi ekki lengra en fyrri samningar og telur grænlensku stjórnina sama sinnis. „Danska stjórnin skilur þetta sem samning sem er bindandi fyrir eitthvað og okkur finnst það ekki rétt og það held ég grænlensku stjórnin þyki heldur ekki". 

Samstarfið verður að vera innan ramma laga og reglna

Í svari til fréttastofunnar segir Anders Samuelsen, utanríkisráðherra Dana, segir að danska stjórnin sé áfram um auðgandi og gott samstarf Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga. Danir vilji ekki flækjast fyrir því, þvert á móti. Samstarfið verði hins vegar að vera innan þeirra formlegu laga og reglna sem gildi og leiði af viðkomandi löggjöf varðandi ríkjasamband Danmerkur, Færeyja og Grænlands, þar á meðal stjórnarskráninni. Danska ríkisstjórnin leggi mikla áherslu á að viðhalda uppbyggjandi samstarfi í ríkjasambandinu um utanríkismál þar sem Færeyjar og Grænlandi hafi mikla lögmæta hagsmuni.

Svar Anders Samuelsens:

”Regeringen ser gerne et godt og frugtbart samarbejde mellem Færøerne, Grønland og Island. Det vil vi ikke stille os i vejen for - tværtimod. Men samarbejdet er naturligvis, for Færøernes og Grønlands vedkommende, nødt til at foregå i overensstemmelse med de formelle rammer, som følger af den relevante lovgivning i rigsfællesskabet, herunder grundloven. Det er helt centralt for regeringen at bevare et konstruktivt samarbejde i rigsfællesskabet om de udenrigspolitiske sager, hvor Færøerne  og Grønland har stærke, legitime interesser.” 

Í svari danska utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Spegilsins segir að Færeyjar og Grænland geti ekki tekið yfir utanríkispólitík og samningurinn sé því utan þess sem einstökum  hlutum ríkisins sé leyfilegt að semja um. Þar að auk uppfylli samningurinn ekki vissar kröfur um form. Vísar danska utanríkisráðuneytið í lög og reglur um réttarstöðu Færeyja og Grænlands innan danska ríkisins.

Michelsen segir samninginn um vestnorræn málefni

Poul Michelsen er annarrar skoðunar, hann segir ógilta samninginn fjalla um vestnorræn málefni. Hann byggi á yfirlýsingu utanríkisráðherra Færeyja, Grænlands og Íslands frá því i ágúst 2016. Þar sé kveðið á um samvinnu í utanríkismálum. „Ábyrgð okkar er að taka höndum saman um vestnorrænt samstarf," segir Michelsen. 

„Krísa" í sambúð Dana við Færeying og Grænlendinga

Ógilding samningsins hefur spillt sambúð herraþjóðarinnar við hin löndin í ríkjasambandinu, Rigsfælledskabet. Poul Michelsen neitaði að taka þátt í ráðstefnu í Kaupmannahöfn um málefni Norðurslóða þar sem Friðrik krónprins var viðstaddur. Michelsen sagði að sér hefði fundist að nærveru sinnar væri ekki óskað. Hann hefði að auki ekki mátt flytja ræðu nema Danir samþykktu efni hennar. Grænlandspósturinn, Sermitsiaq talar um utanríkispólitíska krísu á milli Danmerkur og Færeyja.

Hvergi minnst á ríkjasambandið í samningnum

Í annarri frétt Sermitsiaq er bent á að í ógilta samningnum sé hvergi minnst á ríkjasambandið, heldur einungis ríkisstjórnir Færeyja, Grænlands og Íslands. Hugsanlega má að einhverju leyti rekja viðbrögð Dana til þess, Rigsfælledskabet ríkjasambandið við Færeyjar og Grænland er þeim mikils virði. 

Íslendingar koma ekki nálægt lausn

Utanríkisráðherrar Íslands og Danmerkur ræddu málið einnig stuttlega í síðust viku er þeir hittust á utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins. Í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneytinu segir: „Íslensk stjórnvöld vonast til þess að dönsk, færeysk og grænlensk stjórnvöld leysi þetta mál sín á milli en munu ekki hafa afskipti af málinu enda alfarið um mál ríkjasambandsins að ræða. Við ætlum ekki að hafa nein afskipti eða skoðanir á því. 
Deilan er óleyst og Íslendingar ætla ekki að koma að lausn hennar.
„Þetta eru allt saman vinir okkar sem við viljum rækta og efla tengslin við og við munum halda því áfram," segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
 
 

 

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi