Vestfjarðavegur fyrir samgöngunefnd Alþingis

03.01.2019 - 21:01
Fulltrúar á sveitarfélaga á Vestfjörðum, Tálknafjarðarhrepps, Vesturbyggðar og Reykhólahrepps sem og Vegagerðarinnar komu í dag fyrir Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis vegna vegar um Teigsskóg. Sveitarfélög á sunnanverðum Vestfjörðum vilja að ríkið komi að málinu þar sem vegurinn varðar fleiri íbúa en í Reykhólahreppi.

Valkostagreiningu og Vegagerð greinir á

Sveitarstjórn Reykhólahrepps lét vinna valkostagreiningu þar sem leið Þ-H, um Teigsskóg, sem er tillaga Vegagerðarinnar, og leið R um Reykhóla, sem er tillaga norsku verkfræðistofunnar Multiconsult, voru bornar saman. Niðurstaðan var sú að leið R sé vænlegust. Vegagerðin telur hins vegar að leið R tefji framkvæmdir og sé dýrari en leið Þ-H sem gert er ráð fyrir í samgönguáætlun.

Geta ekki beðið lengur

Í ljósi stöðu mála kölluðu sveitarfélög á Vestfjörðum eftir fundi með umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. „Það erum við sem þurfum að nota þennan veg til að komast til Reykjavíkur, til að sækja alla nauðsynlega. Við þurfum að koma frá okkur afurðum, ferskum á markað. Og við þurfum bara veg strax. Við getum ekki beðið, ástandið á veginum er þannig í dag að við getum ekki unað við óbreytt ástand,“ segir Iða Marsibil Jónsdóttir, oddviti Vesturbyggðar.

Telur tíma og kostnað leiðanna svipaðan

Fulltrúar Reykhólahrepps og Vegagerðarinnar voru jafnframt boðaðir á fundinn. „Ég tel að hvort heldur sem að menn fara Teigsskógsleiðina eða Reykhólaleiðina þá muni það taka álíka langan tíma að ljúka framkvæmdum. Og ég tel líka að þessar tvær leiðir verði álíka dýrar þegar upp er staðið,“ segir Tryggvi Harðarson, sveitarstjóri Reykhólahrepps. Það byggir Tryggvi á fyrirliggjandi gögnum sem sveitarfélagið hefur aflað, meðal annars úr valkostagreiningunni. „Við vitum aftur á móti að Þ-H leiðin er lengra á veg komin. Og það hefur verið samstaða á Vestfjörðum að fara þá leið,“ segir Iða Marsibil. Stefnt er að því að ákvörðun sveitarstjórnar um val á leið liggi fyrir þann 16. janúar. „Ég held að þetta eigi ekki eftir að draga málið og í ljósi þess á ég ekki von á öðru en að allir verði samstíga sveitarstjórn Reykhóla, burtséð frá því hvaða leið verður valin,“ segir Tryggvi.

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi