Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vestfirðir að Glettingi: Gul viðvörun

25.02.2020 - 02:30
Mynd með færslu
Bíll í vandræðum á Mosfellsheiði í gær. Mynd: Kristín Sigurðardóttir
Gul viðvörun vegna hríðarkófs og hvassviðris tekur gildi á öllu norðanverðu landinu í dag. Spáð er allhvassri eða hvassri norðaustanátt og töluverðri snjókomu víðast hvar á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og Austurlandi að Glettingi, þótt minni úrkoma verði á einstaka svæðum. Búast má við skafrenningi, lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum um allt norðanvert landið og eru samgöngutruflanir líklegar.

Veður og færð spilltist fyrst á Vestfjörðum, þar sem gul viðvörun tók gildi klukkan fjögur í nótt og gildir til miðnættis. Á Norðurlandi vestra og eystra tekur viðvörunin gildi klukkan átta og gildir fram á kvöld og á Austurlandi tekur að fenna, blása og skafa af krafti upp úr klukkan 16 í dag og þar fer veður ekki að skána fyrr en undir miðvikudagsmorgun.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV