Verur í myrkrinu og melankólísk jólalög

Mynd: EPA / EPA

Verur í myrkrinu og melankólísk jólalög

21.12.2017 - 11:13

Höfundar

„Þetta bara vatt upp á sig og varð að allsherjar hátíð. Við buðum fullt af vinum og fjölskyldu, þetta er svolítið „Sigur Rós og vinir,“ segir Georg Holm, bassaleikari Sigur Rósar um tónlistarhátíðina Norður og niður sem fer fram í Hörpu milli jóla og nýárs.

Georg segir Ísland vera lendingarstað eftir annasamt tímabil hjá sveitinni. „Við erum búnir að vera á tveggja ára tónleikaferðalagi og þegar við förum á tónleikaferðalög þá viljum við alltaf spila á Íslandi líka. Við ákváðum að sem sagt spila hérna í Hörpu og það stækkaði og endaði í þessari hátíð.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Georg Holm.

Meðal þeirra sem fram koma á hátíðinni eru Daníel Bjarnason, GusGus, Mogwai, Peaches og Jarvis Cocker auk fjölda annarra listamanna. „Þetta eru margir sem við höfum unnið með áður og margir sem við erum kannski að fíla þessa dagana, hafa inspírerað okkur á einhvern hátt eða okkur hefur langað að vinna með. Þetta er bara einhver svona draumalisti,“ segir Georg. Að hans sögn er erfitt að skilgreina hvaða tegundar verkefnið er. „Þetta er ekki tónlistarhátíð, við viljum eiginlega kalla þetta frekar listahátíð. Þetta er nýtt format, má segja, það er dans, það er myndlist, það eru pop-up búðir, náttúrulega tónlist og svo eru fyrirlestrar.“

Dansandi myrkraverur

Íslenski dansflokkurinn frumsýnir verk við tónlist Sigur Rósar á hátíðinni. Eitt verkanna er eftir Ernu Ómarsdóttur danshöfund og Valdimar Jóhannsson. „Þeir komu til mín og báðu mig að gera nýtt verk við nýja tónlist þeirra og það var mjög erfitt að segja nei við því tilboði,“ segir Erna. „Þetta er svo frábær hugmynd að vera með festival milli jóla og nýárs. Þetta er þannig að ég er að gera eitt verk með Valdimari Jóhannssyni í samstarfi við dansara Dansflokksins, og svo fékk ég Ásrúnu Magnúsdóttur og Alexander Róberts til að gera annað verkið.“

Erna sótti innblástur í myrkrið og íslenska skammdegið. „Við lögðum við af stað með að nota tónlist Sigur Rósar sem innblástur. Svo einhvern veginn varð það að vera í Hörpunni á þessum tíma árs, milli jóla og nýárs sem er svona dimmasti tími ársins, að innblæstri. Maður fer að sjá verur og ýmislegt birtast út úr myrkrinu. Það er einhver byrði sem við berum og erum að reyna að kasta af okkur eða losna við. Þetta er auðvitað bara kannski pínu tíðarandinn núna, það er verið að reyna að losa sig við eitthvað gamalt og reyna að ná andanum. Reyna að finna einhvers konar frelsi.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íslenski dansflokkurinn á æfingu.

Móteitur við jólaglimmeri

Annar veigamikill dagskrárliður á Norður&Niður er flutningur jólalaga í nýjum og drungalegum búningi undir titilinum Gloomy Holiday.  Á þeim tónleikum koma fram margir ástsælustu jólalagasöngvarar landsins og syngja sín þekktustu lög í útsetningum Samúels Jóns Samúelssonar.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samúel Jón Samúelsson ásamt feðginunum Svölu og Bó sem hafa marga jólafjöruna sopið.

„Gloomy holiday er svona tónleikakonsept sem snýst um að taka jólalögin, þessi sem við þekkjum, og snúa aðeins upp á þau og setja þau í hægara tempó og í moll. Þetta er svona já svona pínu antidote við jólaglimmerinu sem dynur á okkur í desember,“ segir Samúel.

„Við ætlum að matreiða þau hægar og þau verða svona melankólískari. Þarna verða svona helstu jólakrúnerar Íslands í bland við alþjóðlegar stjörnur; Björgvin Halldórsson, Helgi Björns, Svala, Laddi, Peaches, Alex úr Hot Chip svo ég nefni nokkur nöfn og þetta verður bara svona dálítið dramatískara heldur en fólk á að venjast. Ég ímyndaði mér ákveðið scenario: Jólin áður en rafmagnið var fundið upp, það er myrkur og kannski nokkur kertaljós. Flestir söngvararnir munu flytja sín signature jólalög án þess að ég nefni þau, fólk getur ímyndað sér, Björgvin Halldórsson, Laddi sem er nú þekktur fyrir að syngja sína jólaslagara. Þeir ætla að koma með okkur í þetta ferðalag og flytja þau í allt öðruvísi stemningu.“

Allar nánari upplýsingar um hátíðina má nálgast á vef hennar.

Tengdar fréttir

Tónlist

Hægt að njóta Sigur Rósar í sýndarveruleika

Tónlist

Sigur Rós afhjúpar dagskrána á Norður og niður