Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Veruleikafirring og ábyrgðarleysi

20.07.2012 - 20:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að það beri vott um veruleikafirringu þegar velferðarráðherra neiti að skera niður í samneyslunni til að mæta margra tuga milljarða halla á ríkissjóði.

Ríkisreikningur fyrir síðasta ár var tæpum 50 milljörðum króna hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Tekjuójöfnuðurinn er orðinn ríflega 89 milljarðar. Unnið er nú að fjárlögum næsta árs. Hagfræðingur Samtaka atvinnulífsins hvatti stjórnvöld í útvarpsviðtali til að skera niður útgjöld en hækka ekki skatta, enda væri ólíklegt að þeir skiluðu auknum tekjum. 

Um það segir Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra að rekstur íslenska ríkisins sé ekkert umfangsmeiri en til dæmis hjá öðrum norðurlandaþjóðum þegar litið sé til samneyslunnar. Því verði að leita skýringa annars staðar. Ekki komi til greina að skera meira niður, og ráðherra segist til dæmis ætla að verja heilbrigðiskerfið. Velferðarkerfið virki vel, jöfnuður hafi aukist og það hafi  einmitt verið markmið ríkisstjórnarinnar.

Alvarleg tíðindi

Bjarni Benediktsson segir að niðurstaða ríkisreiknings sé alvarleg tíðindi fyrir komandi kynslóðir.

„Þegar menn segja að umsvif ríkisins séu sambærileg við það sem gerist annars staðar horfa þeir algjörlega framhjá þeirri staðreynd að þessu þjónustustigi, þessum umsvifum er haldið uppi með gríðarlegum hallarekstri – 90 milljörðum í fyrra – Þetta er svo alvarlegt að það ber ekki bara vitni um algera veruleikafirringu heldur einnig gríðarlegt ábyrgðarleysi,“ segir Bjarni.

Höfum ekkert val

Hann segir að stjórnvöld verði að skera meira niður. Það verði að fara alls staðar í ríkisreikninginn og engu eigi að hlífa við niðurskurði, þar sem hægt sé að draga saman seglin.

Bjarni segir að þótt hallareksturinn hafi verið að hluta til svokallaður eins skiptis kostnaður þá sé hitt ríkisrekstur sem ekki stóð undir sér.

„Þannig að við höfum ekkert val. Þeir sem telja að þeir hafi val um að halda áfram á sömu braut eru að steypa ríkjum víða í Evrópu fram á barm glötunar. Við ætlum ekki að fara í fótspor þeirra.“