Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Versta kjörsókn frá því í kreppunni miklu

30.10.2016 - 13:09
Chairman of the Independence Party Bjarni Benediktsson casts his ballot Saturday April 27, 2013, as Icelanders vote in a General Election.  According to polls the parliamentary election could return to power the center-right parties that led the country
 Mynd: AP Photo/Brynjar Gauti
Aðeins 79,2 prósent kjósenda nýttu kosningarétt sinn í gær og í utankjörfundaratkvæðagreiðslu í aðdraganda kosninga. Þetta er minnsta kjörsókn í alþingiskosningum á lýðveldistímanum og reyndar þarf að fara allt aftur til ársins 1933 til að finna dæmi um minni kjörsókn. Í miðri kreppunni miklu nýtti aðeins 70,1 prósent kjósenda atkvæðisrétt sinn. Kjörsókn hefur verið yfir 80 prósentum í öllum þingkosningum frá árinu 1934, þar til í gær.

Kjörsókn hefur farið minnkandi í síðustu alþingiskosningum. Hún var 81,5 prósent árið 2013, 85,1 prósent 2009 og 83,6 prósent árið 2007 og hafði þá aldrei verið lakari á lýðveldistímanum. 

Kjörsókn hefur sögulega verið mikil á Íslandi. Þannig gerðist það í átta þingkosningum í röð, frá 1956 til 1978 að yfir 90 prósent kjósenda nýttu kosningaréttinn. Kjörsókn fór ekki undir 85 prósent fyrr en 1999.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV