Verslunin taki of mikið til sín

01.03.2015 - 19:31
Mynd með færslu
 Mynd:
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að verslunin hafi tekið til sín alltof stóran hluta af verði matvara. Hann segir að þar sem opnað hafi verið fyrir erlenda framleiðslu á kostnað þeirrar innlendu hafi það þýtt að innlendi markaðurinn hafi verið rústaður.

Verslunin sætti harðri gagnrýni í ávarpi Sindra Sigurgeirssonar, formanns Bændasamtakanna, á Búnaðarþingi í dag fyrir að þrýsta á um að aukinn innflutning á kjöti og öðrum búvörum. „Þeir hafa soldið rekið þessa baráttu þannig að það séu hagsmunir neytenda sem séu í húfi varðandi aukinn innflutning. en tölurnar sýna annað.“

Á sama tíma og innflutningur á kjöti hafi aukist hafi verðið hækkað. Verslunin sé því að beita blekkingum. „Það má segja að þeir séu að hluta til að því. Það er eðlilegt að þeir berjist fyrir auknum innflutningi því það hefur verið sýnt að álagning er hlutfallslega hærri í innfluttum búvörum heldur en þeim sem eru framleiddar hér heima og það er eðlilegt að þeir séu þá að berjast fyrir þessu og þeir ættu þá bara að segja það að það sé vegna þess að þeir vilja bæta sína eigin afkomu.“

Forsætisráðherra gagnrýndi einnig verslunina í ræðu sinni á Búnaðarþingi. Hann er ekki sammála því að tollavernd búvara haldi matarverði háu. „Nei aldeilis ekki og ekkert styður þær fullyrðingar. Þvert á móti þá hafa innlendu landbúnaðarafurðirnar haldið aftur af hækkun matvöruverðs hér og nú sjáum við það að verðið hér er það lægsta á Norðurlöndum og í meðaltali Evrópulanda og raunar lágt þegar litið er til útgjalda heimilanna - en þar sem menn hafa opnað fyrir erlenda framleiðslu á kostnað þeirrar innlendu, hefur það einfaldlega þýtt að innlenda markaðnum hefur verið rústað eða hann að minnsta kosti veiktur mjög og þá hækka fljótlega verð innlendu vörunnar í framhaldinu,“ segir Sigmundur Davíð. „Því miður hefur verslunin tekið alltof stóran hlut af verði matvara.“

Atvinnurekendur vísa því að bug að þeir blekki neytendur. „Það er bara alveg af og frá. Við höfum bara rætt staðreyndir sem eru uppi á borðinu varðandi þessa tollvernd á landbúnaðarvörum. Það eru gríðarlega háir tollar á innfluttum búvörum, jafnvel búvörum sem ekki eru framleiddar á íslandi. Jafnvel búvörum sem skortur er á á Íslandi. Formaður Bændasamtakanna segir að þrátt fyrir að innflutningurinn hafi verið mjög mikill þá hafi verðið á búvörum ekki lækkað. Það er ekkert skrítið því tollarnir eru áfram upp í 50% af verðinu á kjúklingi t.d. milli 30 og 40% af verðinu á innfluttu svínakjöti. Þannig að hann verður bara að biðja landbúnaðarráðherrann um laga það ef hann vill að innflutningurinn lækki verðið.“

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi