Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Verslanir neita ASÍ um verðkannanir

06.02.2013 - 12:16
Mynd með færslu
 Mynd:
Hagkaup hefur bæst í hóp með Nóatúni, Kosti og verslunni Víði um að neita Alþýðusambandinu að gera þar verðkannanir. Hagfræðingur ASÍ vonast til að neytendur bregðist við með því að sniðganga þessar verslanir.

Æ fleiri verslanir vísa starfsmönnum ASÍ á dyr

ASÍ hefur síðustu ár sinnt verðlagseftirliti, sem meðal annars felur í sér að gerðar eru reglulegar verðkannanir í matvöruverslunum. Þeim verslunum hefur hins vegar fjölgað að undanförnu sem vísa starfsmönnum Alþýðusambandsins á dyr og neita þar með þátttöku í könnunum. Nóatún, Kostur og Víðir hafa farið þessa leið. Henný Hinz, hagfræðingur hjá Alþýðusambandinu segir að í síðustu viku hafi Hagkaup bæst í hópinn. 

„Þetta hefur auðvitað þau áhrif að við getum ekki sinnt því sjálfsagða og eðlilega aðhaldi með verðlagi í verslunum og veitt neytendum þær upplýsingar sem þeir þurfa til að geta tekið upplýstar ákvarðanir um sín innkaup,“ segir Henný í samtali við fréttastofu RÚV. Hún segir ekki koma til greina að gera þessar kannanir án þátttöku eða vitneskju þessara verslana.

Að neytendur sýni aðhald

Verðlagseftirlitið fer þannig fram að fulltrúi ASÍ fer í verslanir eins og hver annar neytandi. Hann tilkynnir ekki um komu sína heldur gengur upp að hillunum og skráir það verð sem þar er að finna. Verslunareigendur hafa forræði yfir sínum verslunum og rétt til þess að vísa viðkomandi út úr versluninni. Henný segist vonast til að þetta hafi áhrif á val neytenda.

„Við vonumst auðvitað til að neytendur bregðist við og sýni sitt aðhald í verki með því að neita að versla við aðila sem ekki treysta sér til að upplýsa um verðlag í sínum verslunum.“  

Segir verðkannanir ASÍ ómarktækar

Í yfirlýsingu frá Hagkaupum í morgun vegna málsins segir að ákvörðun um að hætta þátttöku í verðkönnunum ASÍ hafi verið tekin eftir árangurslausar athugasemdir um langt skeið við framkvæmd og framsetningu þeirra. Verðkannanirnar hafi enda verið ómarktækar um nokkurra missera skeið. Þær mæli ekki verð á matvörumarkaðinum í heild heldur nánast eingöngu hjá lágvöruverðsmörkuðum. Það sé villandi fyrir neytendur. Fjöldi verslana taki ekki þátt í könnununum. Forráðamenn Hagkaupa fullyrða í yfirlýsingunni að vöruverð þar sé mun lægra en hjá fjölda verslana sem aldrei taki þátt í verðkönnunum. Samt slái Alþýðusambandið því upp í fyrirsögnum að Hagkaup sé dýrast. Það geti menn ekki sætt sig við.