Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Verri staða hjá þolendum kynferðisofbeldis

29.03.2019 - 19:26
Mynd:  / 
Þolendur kynferðisbrota hafa mun verri réttarstöðu hér á landi en víðast annars staðar á Norðurlöndunum. Þetta segir sérfræðingur í réttarfélagsfræði. Það geti verið þolendum mjög þungbært að fá ekki upplýsingar um stöðu rannsóknar á kynferðisbroti.

Þegar einstaklingur kærir kynferðisbrot til lögreglu verður til sakamál. Aðild að málinu eiga ríkið og sá sem skaður er um kynferðisbrot. Sá sem verður fyrir kynferðisofbeldi er ekki aðili máls heldur hefur stöðu vitnis. Þetta þýðir að ríkið hefur fáar skyldur gagnvart brotaþola. Hann hefur til að mynda ekki aðgang að ýmsum gögnum og ekki er skylt að upplýsa hann um það ef sakborningur er settur í gæsluvarðhald og þegar hann er látinn laus.

Rannsókn og meðferð kynferðisbrota var rædd á lagadeginum í Hörpu. 

„Réttarstaða brotaþola á Íslandi er í rauninni mun lakari heldur en víðast hvar annars staðar á Norðurlöndunum,“ segir Hildur Fjóla Antonsdóttir, doktorsnemi í réttarfélagsfræði. 

Þolendur sem ekki hafi aðild að sakamáli hafi upplifað það þannig að líkami þeirra og sálarlíf séu í raun brotavettvangur og persóna þeirra vitni að brotinu. 

„Það er oft mjög erfitt fyrir brotaþola þessi langa bið sem hefst eftir að brotaþoli er búinn að gefa sína skýrslu hjá lögreglu, þá hefst þessi langa bið þar sem brotaþolar oft vita ekkert hvað er að gerast í lögreglurannsókninni og geta ekki haft neina aðkomu að henni til þess t.d. að hjálpa til við að upplýsa málið. Til dæmis eru brotaþolar hræddir um að sakborningar hefni sín á þeim eða ógni þeim með einhverjum hætti. Þannig að það að vera búinn að kæra getur verið upphafi að mjög kvíðavaldandi ferli,“ segir Hildur Fjóla.

Eru dæmi um það að sakborningar reyni að ná fram hefndum?

„Það eru dæmi um það en ég held að hræðslan um það er í rauninni nóg til þess að gera það að verkum að fólk getur varla mætt í vinnuna eða skóla,“ segir Hildur Fjóla.

Hún hefur unnið drög að skýrslu fyrir stýrihóp forsætisráðherra og leggur til að réttarstaða brotaþola verði sterkari. Þannig að þolendur fái aukinn rétt til upplýsinga og þátttöku á rannsóknarstigi, ákæru- og dómstigi og að dómi loknum. Jafnframt að aðgengi að bótarétti verði aukið.