Veröld, hús Vigdísar er fallegur staður

Mynd: Ruv myndir / Ruv myndir

Veröld, hús Vigdísar er fallegur staður

18.04.2017 - 13:32

Höfundar

Veröld, hús Vigdísar, verður vígt á sumardaginn fyrsta. Tilkynnt var um nafn hússins fyrr í dag. Síðdegisdagskráin á Rás 1 á fimmtudag verður helguð opnun hússins en það mun hýsa Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og tungumálanám Háskóla Íslands.

Arkitektarnir að baki hönnun hússins eru þeir Kristján Garðarsson og Haraldur Örn Jónsson hjá arkitektastofunni Andrúm. Í viðtalinu hér að ofan er gengið með þeim um húsið.

Nálægt tillögunni 

Þeir Kristján og Haraldur Örn segja að endanleg útfærsla hússins sé nokkuð nærri tillögunni sem þeir skiluðu inn í samkeppni um byggingu hússins á sínum tíma. 

Tveir þættir bygginarinnar eru mjög áberandi þegar komið er inn í alrými. Annars vegar stigi sem vindur sig upp eftir því undir loftgluggum sem birta upp rýmið og hins vegar rauður salur sem nýtist til kennslu, funda- og tónleikahalds. 

„Stiginn kom strax til okkar þegar við fórum að hugsa um húsið og tilgang þess,“ segir Kristján. „Tungumálin tengja okkur öll saman og stiginn er holdgerving þeirrar hugmyndar.“

Grískættað útisvæði

Við suðurenda hússins er bæði að finna sérstaka Vigdísarstofu þar sem möguleiki verður á sýningarhaldi og útisvæði sem innblásið er af grískum útileikhúsum. Stallar gera mögulegt að bjóða þar upp á dagskrá á góðviðrisdögum og þar verður líka kaffistofa rétt við innganginn inn í jarðgöngin sem ganga undir Suðurgötuna og tengjast Háskólatorgi. 

Hér fyrir ofan má heyra ýtarlegt viðtal við arkitektana Kristján Garðarsson og Haraldur Örn Jónsson.

RÚV tekur þátt í opnuninni

Á sumardaginn fyrsta, 20. apríl, verður vegleg dagskrá síðdegis sem tengd opnun hússins á Rás 1:

  • kl. 15.  Þýðingar eru súrefni tungunnar. Þáttur um þýðingar og íslenska tungu. Umsjón: Jórunn Sigurðardóttir.
  • kl. 16:05.  Tungumálakennarinn minn. Umsjón: Anna Sigríður Þráinsdóttir.
  • kl. 17:00. Bein útsending frá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur. Umsjón: Eiríkur Guðmundsson og Guðni Tómasson.

Vígsluathöfninni verður einnig streymt í beinni útsendingu hér á vef RÚV.