Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Verndaráætlun mótmælt

22.06.2010 - 19:19
Mynd með færslu
 Mynd:
Á fimmtudaginn rennur út umsagnarfrestur vegna verndaráætlunar Vatnajökulsþjóðgarðs. Ferðaklúbburinn 4x4 hefur farið mikinn í auglýsingum í dag og hvetur fólk til þess að mótmæla lokun á tilgreindum svæðum í landi þjóðgarðsins.

Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður árið 2008. Unnið er að því að skilgreina þjóðgarðinn með tilliti til verndunar og stjórnunar. Ferðaklúbburinn fjórum sinnum fjórir mótmælir því að verið sé að loka Vonarskarði, Heinabergsdal, Vikrafellsleið og leiðum í Jökulheimum og á Tungnaáröræfum fyrir akandi umferð.

Í kynningarblaði sem fylgir Fréttablaðinu í dag segir til dæmis að ekið hafi verið um Vikrafellsleið norðan Dyngjufjalla í 60 ár.

Sveinbjörn Halldórsson, formaður ferðaklúbbsins 4x4 segir að hagsmunir margra muni koma til með að skerðast.

Svandísi Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, hafa borist um 600 mótmælabréf í dag vegna verndaráætlunarinnar. Hún segir áætlunina ennþá vera til umfjöllunar og að hún hafi ekki enn verið send henni til staðfestingar. Hún geti því ekki tekið efnislega afstöðu til hennar.

Stjórn þjóðgarðsins vill ekki ræða einstakar athugasemdir efnislega fyrr en umsagnarfrestur er liðinn. Það sé hinsvegar mikilvægt að búa til miðlæga skrá yfir þá vegi sem eru viðurkenndir akvegir og útrýma um leið kortum sem ekki eru viðurkennd.