Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Verksmiðja PCC tilbúin um miðjan desember

26.10.2017 - 21:05
Mynd með færslu
 Mynd: Gaukur Hjartarson
Nú er búið að ráða um níutíu prósent alls starfsfólks við kísilverksmiðju PCC á Bakka við Húsavík. Fyrirtækið fær verksmiðjuna afhenta þrettánda desember, en hráefni til framleiðslunnar er þegar tekið að berast.

Verksmiðjusvæðið á Bakka tekur miklum breytingum þessar vikurnar. Það sem áður voru berar stálgrindur eru að verða fullmótuð hús og einstaka byggingar eru þegar tilbúnar. Og það er mikið um að vera á öllu framkvæmdasvæðinu.

Um 500 manns að vinna á framkvæmdasvæðinu

„Það eru örugglega 500 manns að vinna hérna í dag,“ segir Jökull Gunnarsson, framkvæmdastjóri framleiðslu hjá PCC á Bakka. „Bæði fólk frá okkur og svo frá hinum ýmsu verktökum sem tengjast framkvæmdinni, sem eru að vinna, og allt á fullu að reyna að klára.“

Verksmiðjan afhent 13. desember

13. desember er gert ráð fyrir að SMS, verktakinn á Bakka, afhendi PCC verksmiðjusvæðið. Þá hefst formlegt gangsetningarferli kísilverksmiðjunnar. Þetta ferli, segir Jökull, er til að sannreyna á öllum sviðum starfseminnar hvort starfsfólk PCC sé tilbúið að hefja rekstur verksmiðjunnar. „Og það verður ekkert sett í gang hérna fyrr en við í rauninni erum tilbúin til þess. Þó svo opinber dagsetning sé 13. desember er ekki þar með sagt að við setjum ofninn í gang þá. En við tökum formlega við verksmiðjunni þá.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Búið er að ráða tæp 90% starfsfólks PCC á Bakka

Búið að ráða 101 af 111 starfsmönnum

Það verða 111 starfsmenn hjá PCC á Bakka og þegar er búið að ráða í 101 starf. Helmingur starfsfólks er frá Húsavík og nærsveitum og hinir eru annars staðar að af landinu, Íslendingar sem búið hafa erlendis og erlendir starfsmenn. Verst hefur gengið að ráða iðnaðarmenn og þeir verða margir erlendir. „Iðnaðarmennirnir eru nánast ekki til á Íslandi og við höfum þurft að sækja út fyrir landsteinana til að finna þá.“ segir Jökull.

Allt gert til að til forðast loftmengun 

Mengunin frá verksmiðju United Silicon í Helguvík hefur vakið upp spurningar um hvort slíkt muni gerast á Bakka. Byggðin á Húsavík er álíka langt frá verksmiðju PCC og næstu hús í Reykjanesbæ frá Helguvík. „Við ætlum að vanda okkur, það er bara okkar markmið að vanda okkur á allan hátt og gera hlutina eins vel og mögulegt er,“ segir Jökull.
Og Húsvíkingar þurfa ekkert að óttast lyktarmengun eða aðra mengun?
Nei, eins og ég sagði áðan, við ætlum að vanda okkur og við gerum allt sem við getum til að koma í veg fyrir að við séum að hafa einhver óþægileg áhrif á nágranna okkar á Húsavík.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Mikil umsvif eru á framkvæmdasvæðinu

Fjöldi fólks í þjálfun innanlands og utan

Jökull segir að helstu verkefnin hjá BCC á Bakka þessa dagana séu þjálfun starfsfólks. „Við erum með hóp af fólki á bóklegu vinnuvélanámskeiði, við erum að þjálfa fólk í verklegu á vinnuvélum. Við erum með hópa úti í Noregi í verksmiðju þar í þjálfun og við sendum hóp allaleið til Kasakstan líka til að fá smá þjálfun þar í verksmiðju sem er mjög lík okkar. Þannig að það er bara þjálfun og meiri þjálfun alveg á fullu.“

Hráefni þegar tekið að berast til verksmiðjunnar

Og þó að byggingaframkvæmdir séu enn á fullu, og tæpir tveir mánuðir í gangsetningu verksmiðjunar, eru hráefnissendingar farnar að berast. „Já, við erum búin að fá prufusendingu af timbri frá Finnlandi. Og svo er núna skip á leiðinni með fyrstu sendingu af kvartsíti og kolum og svo kemur mjög fljótlega fullt af gámum með skautum frá Evrópu,“ segir Jökull.