Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Verklok sjúkraflutninga undirbúin

Mynd með færslu
 Mynd:
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins undirbýr nú að hætta sjúkraflutningum. Slökkviliðsstjóri segir þetta dapurt og óttast að þjónustan skerðist ef sjúkraflutningarnir fara annað.

Stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins fól slökkviliðsstjóra fyrir helgi að byrja að undirbúa verklok sjúkraflutninga. Viðræður hafa staðið yfir milli slökkviliðsins og ráðuneytisins undanfarnar vikur en þær hafa ekki skilað samningi. Samningslaust hefur verið um sjúkraflutninga frá árslokum tvö þúsund og ellefu.

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri gerir ráð fyrir að verklokin taki nokkra mánuði. „Undirbúningurinn núna felst í því að kortleggja hvernig munum taka þátt í þessari verklokaáætlun og eins teikna up nýtt lið sem myndi þá sinna slökkvistarfi og eldvarnareftirliti alfarið, ekki vera með sjúkraflutninga.“

Jón Viðar segir engin svör hafa borist frá velferðarráðuneytinu og málið því í óvissu. Ef af verklokum verði þýði það töluverða fækkun starfsfólks. Jón Viðar er ósáttur við þetta stöðu. „Þessi þjónusta, allavega að okkar mati og þeirra sem tekið hafa út okkar starfsemi, er til fyrirmyndar og hefur verið að virka afskaplega vel fyrir höfuðboertarsvæðið þannig að mér finnst það bara mjög dapurt bæði fyrir sjúkraflutningana og slökkviliðið og ekki síður fyrir þá sem búa hérna á svæðinu.“

Heldurðu að það hafi áhrif á þjónustuna ef þetta fer svona? „Ég vona svo innilega ekki því að það er okkar hlutverk að sjá til þess að svo verði ekki, en ég óttast það, já.“