Verkið sem Beyoncé stal

Mynd: RÚV / RÚV

Verkið sem Beyoncé stal

19.09.2018 - 16:00

Höfundar

„Verkið er eiginlega bara trans, sem maður horfir á, ef maður kemst inn í það. Ég veit að margir áhorfendur löbbuðu út. Það er eitthvað sem gerist,“ segir Erna Ómarsdóttir, listrænn stjórnandi Íslenska dansflokksins, um sitt uppáhalds listaverk.

Útvarpsþátturinn Víðsjá hefur að undanförnu gert sér það að leik að ræða við fólk um listaverk sem hafa haft mikil áhrif á líf þess. Þessu hefur verið háttað þannig að viðmælendur klukka þann sem er næstur í röðinni. Boltinn liggur að þessu sinni hjá Ernu Ómarsdóttur, listrænum stjórnanda Íslenska dansflokksins, en uppáhalds listaverkið hennar er dansverkið Rosas Danst Rosas eftir Önnu Teresu.

„Á áttunda áratugnum kom upp hin svokallaða belgíska alda fram, af danshöfundum sem voru að gera allt örðuvísi hluti og Anna Teresa var ein af þeim,“ segir Erna. „Á þessum tíma hafði sýningin mjög mikil áhrif á mig, og gerir enn. Fyrir mér er verkið orðið að klassík og ég hef alltaf viljað koma með það hingað til Íslands.“

Erna segir að fyrir nokkrum árum hafi tónlistarkonan Beyoncé hreinlega stolið verkinu – bæði búningum, dansinum sjálfum og því hvernig myndin var tekin. „Hvort sem það var hún eða leikstjóri myndbandsins, þá varð þetta allavega blaðamál. Beyoncé hefur greinilega ekki haft hugmynd um það hversu stór Anna Teresa var í dansheiminum. Mér finnst þetta áhugavert dæmi, því það er alveg hægt að verða fyrir áhrifum og gera hluti að sínu en hún tók þetta bara og skellti þessu inn í tónlistarmyndband fyrir Countdown lagið, það er enginn vafi á því.“

Erna Ómarsdóttir sagði frá verkinu í Víðsjá og hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan. Erna hefur skorað á Frosta Runólfsson leikara til að segja frá sínu uppáhalds verki.