Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Verkið er algjörlega dautt“

Mynd: Wikimedia Commons  / Wikimedia Commons

„Verkið er algjörlega dautt“

21.11.2017 - 14:53

Höfundar

Málverkið Salvator Mundi sem eignað er Leonardo da Vinci var selt fyrir metfé á uppboði í New York í síðustu viku. Efasemdir hafa komið fram um verkið en í Víðsjá á Rás 1 var fjallað um Leonardo og listaverkið.

„Stundum lætur himnesk forsjón hæfileikum rigna yfir manneskjur rétt eins og um náttúruafl sé að ræða. Og stundum, líkt og með yfirnáttúrulegum hætti, verður einn maður gæddur slíkri fegurð, þokka og hæfni að allar gjörðir hans verða svo himneskar að hann skilur alla menn eftir að baki sér og gerir um leið sjálfan sig þekktan sem snilling sem er gæddur hæfileikum frá Guði frekar en mannlegum hæfileikum.“ 

Svona, með þessum innblásna og kraftmikla hætti hefur faðir listsagnfræðinnar Giorgio Varsari að segja frá flórenska málaranum og höggmyndagerðarmanninum Leonardo da Vinci. Vasari gaf út kafla sína um líf listamanna sem við tengjum í dag við endurreisnina fyrst árið 1550, rúmum 30 árum eftir að Leonardo yfirgaf þennan heim í sinni mannlegu mynd.

Fjölhæfni var málið

En andi Leonardos hefur svo sannarlega verið með okkur síðan. Við dáum listamanninn og skiljum tæplega hvað framsýni hans gat verið mikil. Hvernig hann gat, meðfram því að búa til ódauðleg listaverk, stundað verkfræði og hernaðartækni og unnið að uppfinningum að miklum móð sem sumar hverjar virtust veita honum eins konar sýn inn í framtíðina. Hann var málari, höggmyndalistamaður, arkitekt, verkfræðingur, vopnauppfinningamaður, heimspekingur og eiginlega vísindamaður á öllum þekktum og óþekktum sviðum á þeim tíma.

Í bókinni Listin er meira, Art is more orðar listfræðingurinn J.L. Siesling það svo að slík fjölbreytni sé meira en mannleg frá sjónarhorni dagsins í dag, hún sé ofurmannleg. „Nema hvað okkar sjónarhorn er rangt,“ segir Siesling:

„Fjölhæfni var regla í listaheimi fyrri alda. Ólíkir hæfileikar listamannsins voru tæknilega nátengdir. Arkitekt sem hafði aðalumsjón með byggingu miðaldakirkju þurfti að vera fullkomlega fær í flestum þeim iðngreinum sem þar komu nærri. Steinsmíði, freskugerð, steint gler, höggmyndir, trésmíði fyrir þakið, reikningur og verktækni ýmiskonar og auk þess bókhald, samningalipurð og nokkur guðfræði, allt þurfti þetta að vera á hreinu til að fullkomna verkið.“

Leonardo da Vinci var slíkur maður.

epa06285577 Security staff guard Leonardo da Vinci's 'Salvator Mundi' painting at Christie's auction house in London, Britain, 24 October 2017. The painting is expected to fetch 100 million US dollars at auction in New York on 15
 Mynd: EPA
Listaverkið Salvator Mundi náði heimsathygli á dögunum þegar það var slegið fyrir metfé.

Rándýra verkið

Og enn grípur þessi listamaður athygli okkar, 565 árum eftir að hann fæddist utan hjónabands í smábænum Vinci í Toskana héraði sem nú er úthverfi Flórens. Og fréttir bárust af því í síðustu viku að málverkið Salvator Mundi, Frelsari heimsins, hefði selst á alveg nýja upphæð í listaheiminum. Önnur eins tala hefur aldrei sést. 450,3 miljónir dollara sem eru víst rúmlega 46 milljarðar íslenskra króna. Fyrir eina mynd.

Uppboðshúsið sem  seldi verkið kaupanda sem ekki var viðstaddur í salnum heldur fylgdist með í gegnum síma var Christie’s í New York og það er ekki hægt að segja annað en að þar hafi menn unnið vinnuna sína í aðdraganda uppboðsins, þ.e.a.s. auglýsingavinnuna. Mikilvægi verksins var svo sannarlega blásið rækilega upp í aðdraganda uppboðsins. „Merkasta og óvæntasta uppgötvun á sviði listarinnar á 21. öld“ sagði í gögnunum sem fylgdu uppboðinu og fylltu hvorki meira né minna en 162 blaðsíðna bók þar sem vitnað var í hugsuði á borð við Dostojevskíj, Freud og fleiri höfuðsnillinga, auk auðvitað Leonardos gamla. Safarík auglýsingamyndbönd voru búin til.

Lýsingarorðin skorti ekki um þetta nýja meistaraverk. Talað var um verkið sem hinn „heilaga gral myndlistarbransans, karlkyns Monu Lisu, síðasta verk meistara da Vinci.“ Verkinu var jafnvel lýst sem einhverju sem gæti nánast bara jafnast á við uppgötvun nýrrar plánetu.

Vonandi er eigandi verksins lukkulegur með það, en það þýðir ekki að allir séu vissir um mikilvægi verksins eða uppruna ef út í það er farið og þessar efasemdir komu fram í aðdraganda uppboðsins og einnig eftir það.

Í verkinu horfir Kristur, frelsari heimsins, beint á okkur. Hann er þokukenndur þessi Kristur, sveipaður sfumato tækninni sem da Vinci beitti meðal annars í verkinu af hinni dularfullu Monu Lisu. Hann heldur á glerkúlu í vinstri hendi, tákni fyrir heiminn allan og líklega syndir hans um leið.

Mynd með færslu
 Mynd: Youtube.com
Listgagnrýnandinn Jerry Saltz gefur Salvator Mundi ekki háa einkunn.

Efasemdir um upprunaleika

Einn af þeim sem sett hefur fram efasemdir um listaverkið er listgagnrýnandinn Jerry Saltz sem skrifar í fjölmörg listtímarit og meðal annars á vefsíðuna Vulture.com þar sem hann setti fram efasemdir sínar á dögunum.

„Af hverju ætli Leonardo sé seldur á uppboði fyrir samtímalist og list 20. aldar?“ var spurning sem Saltz var spurður af kollega, manni sem hallaði sér að honum þegar þeir voru að brjóta sér leið í gegnum mannþröngina til að sjá verkið í húsakynnum Christie’s fyrir uppboðið. Saltz náði ekki að bregðast við áður en svarið kom: „Jú, af því að 90 prósent verksins er málað á síðustu 50 árum.“

Nútímatækni við að skoða verkið sýnir þetta einmitt, margoft hefur verið unnið við verkið og málað í það. Verkið er nefnilega mikið endurbætt en það var í eigu rússnesks milljarðamærings sem líklega hefur vantað aur. En verkið var líka selt árið 1958 á uppboði í London og þá fyrir 60 Bandaríkjadali enda talið verk lærlings Leonardos.

Í Vulture tímaritinu færir Jerry Saltz rök fyrir sinni skoðun. Hann tekur fram að hann sé ekki kennivald í gömlu meisturunum en hafi samt 50 ára reynslu af því að skoða málverk gaumgæfilega og þarna sé enginn Leonardo á ferð.

„Verkið er algjörlega dautt. Yfirborðið er sljótt, lakkað, eins og skrúbbað og endurmálað, nýtt og gamalt í senn“ sem auðvitað væri vitanlega einmitt það sem virkar best þegar vafasamt verk er sett aftur í umferð. „Þess vegna,“ segir Saltz „greip Christie’s til óljósra orða, sagði til dæmis „áru verksins dularfulla.““

Fágæt listaverk

Talið er að 15-20 eiginleg málverk eftir Leonardo séu til í heiminum. Ekkert þeirra sýnir Krist og í engu þeirra horfir persónan í verkinu svona beint fram eins og Frelsari heimsins gerir. Saltz orðar það svo að þessi Kristur sé meira eins og býsönsk helgimynd en endurreisnarmálverk. Myndin sé flöt og of symmetrísk.

Uppboðshúsið hefur talað mikið um gullnu hlutföllin í myndinni, forn gríska reiknireglu um „rétta“ uppbyggingu mynda sem Saltz segir aftur á móti að séu of augljós í verkinu til að geta verið úr pensli Leonardos. Hann var dularfyllri en þetta þegar kom að uppbyggingu.

Stjórnast af græðgi

Saltz ber uppboðshúsið þungum sökum. Talar um hreina og klára græðgi, sem greinilega gekk þá vel upp í þessu tilviki. Ryki sé þyrlað upp til að skrökva því að almenningi að þarna sé um meistaraverk að ræða, en þetta séu fyrst og fremst kúnstir með reyk- og spegla. Hann segir sérfræðinga á þessu sviði hafa sig hæga, svo miklir séu hagsmunirnir og samtryggingin í þessu efsta lagi listuppboðanna í dag. Sama eigi við um einstaka starfsmenn uppboðshússins, enginn geti sagt að keisarinn sé ekki í neinum fötum.

Greininni í Vulture, sem birt var degi fyrir uppboðið, lauk Saltz með því að segja það gott á nýjan eiganda verksins að eyða fúlgu í verkið. Sá aðili sem tapi mestu í málinu sé samt uppboðshúsið sjálft, Christie’s hafi misst allan trúverðugleika með sölunni.

Jerry Saltz segir þetta, Christie’s allt annað og vonandi er nýr eigandi Salvator Mundi lukkulegur með 46 milljarða myndina sína. En þetta er auðvitað fyrir löngu komið út í vitleysu.