Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Verkföll gætu haft ófyrirséðar afleiðingar á lýðheilsu

05.03.2020 - 09:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Yfirstandandi og fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir geta ógnað lýðheilsu á Íslandi með ófyrirsjálanlegum afleiðingum. Þetta er mat ríkislögreglustjóra, landlæknis og sóttvarnarlæknis sem skora á deiluaðila að leita allra leiða til að enda þær verkfallaðgerðir sem nú eru í gangi og jafnframt koma í veg fyrir fyrirhugaðar aðgerðir.

Þetta kemur fram í sameiginlegu minnisblaði landlæknis, sóttvarnarlæknis og ríkislögreglustjóra sem fréttastofa hefur undir höndum en Morgunblaðið greindi fyrst frá. Minnisblaðið var sent til ríkis, sveitarfélaga og stéttarfélaga.

Viðbúið að tölur hækki

Starfsmenn Eflingar hjá Reykjavíkurborg hafa verið í ótímabundnu verkfalli frá 17. febrúar og 15.400 starfsmenn BSRB hefja verkfallaðgerðir á mánudaginn.

Tilefni minnisblaðsins er útbreiðsla COVID-19 veirunnar og segir að viðbúð sé að tölur yfir smitaða eigi eftir að hækka á næstu vikum og mánuðum.

Í því skyni að hefta útbreiðslu veirunnar gegni opinberar stofnanir lykihlutverki, svo sem sjúkrastofnanir, öldrunarstofnanir, lögregla, Neyðarlína, slökkvilið, sjúkraflutningar og fjöldi annarra opinberra stofnana, hvort sem þær eru reknar af ríki eða sveitarfélögum. Þá gegni fjöldi einkaaðila einnig mikilvægu hlutverki.

Leiti allra leiða til að enda verkfallsaðgerðir

Þess vegna sé mikilvægt að allir séu undir það búnir ef neyðarstigi verður lýst yfir vegna faraldursins. Er því skorað á þá aðila sem nú eru í kjarasamningaviðræðum að „leita allra leiða til að enda þær verkfallsaðgerðir sem nú eru í gangi og jafnframt koma í veg fyrir þær aðgerðir sem nú eru fyrirhugaðar.“

Í minnisblaðinu segir enn fremur: „Líklegt má telja að verkfallsaðgerðir muni draga úr þeim opinberu sóttvarnaraðgerðum sem nú eru í gangi gegn COVID-19 með ófyrirséðum afleiðingum fyrir lýðheilsu hér á landi. Þá munu verkföll án efa hafa veruleg áhrif á veitingu heilbrigðisþjónustu.“