Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Verkaskipting ráðuneyta breytist

Mynd með færslu
 Mynd:
Verkaskipting ráðuneyta verður nokkuð önnur í nýrri ríkisstjórn en verið hefur. Meðal annars tekur forsætisráðuneytið við málum sem varða þjóðmenningu og varðveislu menningararfsins, fornleifar, örnefni og vernd þjóðargersema.

Þetta eru verkefni sem áður voru helst í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þjóðminjasafn Íslands, Minjastofnun Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum eru til dæmis sérstaklega nefndar sem mál forsætisráðuneytisins í forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna sem birtur var í gær. Umhverfis- og skipulagsmál sem tengjast vernd sögulegrar og menningartengdrar byggðar eru nú mál forsætisráðuneytisins en skipulagsmál eru alla jafna í umhverfisráðuneytinu. 

Málefni Hagstofu Íslands, hagskýrslugerð og upplýsingar um landshagi fara frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu í forsætisráðuneytið  en umgjörð og eftirlit með fjármálamarkaðnum flytst loks til fjármála- og efnahagsráðuneytisins frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Mennta- og menningarmálaráðherra var samstarfsráðherra Norðurlanda í stjórninni sem fór frá í gær en skipti við erlend ríki og þar með talin norræna samvinna verður verkefni utanríkisráðherra í nýju stjórninni. 

Með nýjum lögum um stjórnarráðið sem voru samþykkt í hittifyrra er auðveldara að flytja verkefni milli ráðuneyta og með þeim var líka gert mögulegt að tveir ráðherrar séu í sama ráðuneyti eins og nú má sjá, þar sem Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra og Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra skipta með sér verkum  í velferðarráðuneytinu og Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gegna bæði störfum í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.