Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Verkamenn eiga inni margra mánaða laun í Katar

26.09.2018 - 01:13
Erlent · Asía · Katar
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Tugir farandverkamanna hafa starfað launalausir mánuðum saman í borginni Lusail í Katar. Hún er ein borganna þar sem keppt verður í Heimsmeistaramótinu í fótbolta 2022. Í skýrslu Amnesty International segir að verktakafyrirtækið Mercury MENA skuldi starfsmönnum sínum þúsundi dollara í laun og launatengd gjöld. Verkamennirnir séu því auralausir og fastir í landinu. Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, segir að skýrsla Amnesty sé misvísandi og ógreidd laun tengist ekki undirbúningi HM.

Samkvæmt skýrslu Amnesty hafa minnst 78 verkamenn frá Nepal, Indlandi og Filippseyjum ekki fengið laun síðan í febrúar 2016. Þeir eiga inni um tvö þúsund bandaríkjadali að meðaltali, jafnvirði um 220 þúsund króna. Að sögn Amnesty hefur þessi dráttur á launagreiðslum lagt líf einhverra verkamannanna í rúst. Sumir þeirra tóku há lán til að tryggja sér vinnu í Katar, segir í skýrslunni. Haft er eftir einum verkamanni frá Filippseyjum að hann skuldi meiri peninga eftir tveggja ára störf í Katar en áður en hann hóf störf þar. Nokkrir verkamenn frá Nepal urðu að taka börn sín úr skólum eða selja landareignir til að borga skuldir vegna vinnunnar í Katar. Steve Cockburn, yfirmaður alþjóðamála hjá Amnesty, hvetur stjórnvöld í Katar til þess að greiða verkamönnunum þau laun sem þeir eiga inni.

Mercury MENA reisir nú borgina Lusail, sem verður ein keppnisborganna á HM 2022. Auk þess reisti verktakinn leikvang sem notaður var sem sýnishorn árið 2010 þegar Katar sótti um að halda mótið. Í skýrslunni er sagt að Mercury MENA nýti sér ákvæði í svokölluðu kafala-kerfi Katars. Samkvæmt því mega verkamenn ekki skipta um vinnu eða fara úr landi nema með samþykki yfirmanna. Að sögn Amnesty fóru þeir sem fengu að fara, alfarið á eigin kostnað.

Talsmaður FIFA segir í samtali við AFP fréttastofuna að ekkert bendi til þess að þær ásakanir sem komi fram í skýrslu Amnesty séu tengdar FIFA eða HM 2022. Sambandinu þyki miður að Amnesty ákveði að setja hlutina fram á þann hátt.

Um tvær milljónir erlendra verkamanna eru nú við störf í Katar. Margir þeirra vinna beint eða óbeint við verkefni tengd uppbyggingu vegna HM. Bág staða verkafólks í ríkinu hefur lengi verið undir smásjá alþjóðasamfélagsins, og sögðu stjórnvöld í Doha fyrr í þessum mánuði að þau ætluðu að afnema reglur um að verkamenn þyrftu leyfi yfirmanna til að hætta störfum eða fara úr landi. Engin tímasetning var þó gefin út um hvenær það yrði afnumið. Í apríl opnuðu alþjóðasamtök verkalýðsfélaga skrifstofu í Doha, í samræmi við ákvæði í samningi ríkisins við Sameinuðu þjóðirnar um eftirlit með aðbúnaði verkamanna í landinu.