Verk Dieters Roths á Hnallþóru í sólinni

Mynd með færslu
 Mynd:

Verk Dieters Roths á Hnallþóru í sólinni

28.10.2013 - 20:07
Listamaðurinn Dieter Roth höfðaði til skordýra með myglandi matarskúlptúrum og fyrir kom, að heilbrigðiseftirlit fetti fingur út í verk hans. Sýning á prentverkum Dieters á Seyðisfirði er þó öllu snyrtilegri.

Í Skaftfelli á Seyðisfirði stendur yfir sýningin Hnallþóra í sólinni, grafíksmyndir og bókverk svissneska listamannsins Dieter Roth sem var um tíma viðloðandi Seyðisfjörð.

Tinna Guðmundsdóttir, forstöðukona Skaftfells, segir að Dieter Roth hafi hafið ferilinn í hefðbundinni grafíklist, síðan snúið sér að tilraunum með grafíktækni og efnivið í skúlptúra. „Honum varð uppsigað við hefðbundin bókverk, hakkaði þau í pylsur og afbyggði á allan máta. Hann vann í anda konkret liststefnunnar en á sjöunda áratugnum varð andspyrnan gegn hefðbundnum listgildum allsráðandi,“ segir hún.

Tinna bætir því við að Dieter hafi ekki unnið verk fyrir myndlistarmarkaðinn sjálfan, heldur verið að skoða hversu langt hann gæti gengið með því að búa til myndlistarverk; í rauninni að athuga mörk grafíkmiðilsins.

Dieter var hugfanginn af prenttækni og þróaði eigin aðferðir. Eftir hann liggja yfir 500 prentaðar grafíkmyndir og seríur. Í dag þykir hann með merkari myndlistarmönnum Evrópu eftir seinna stríð. Hann flutti til Íslands árið 1957 og hafði mikil áhrif  meðal annars á SÚM hópinn sem varð grunnurinn að Nýlistasafninu.

Frá árinu 1990 vandi Dieter Roth komur sínar til Seyðisfjarðar og hvatti marga þar til listsköpunar. Hann lést í vinnustofu sinni í Basel árið 1998.