Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Verður brjálað stuð“ segir rokkarabæjarstjóri

06.07.2018 - 11:50
Mynd með færslu
 Mynd: Karl Óttar Pétursson - RÚV
„Ég hef fulla trú á því að það verði brjálað stuð að búa í Fjarðabyggð,“ segir Karl Óttar Pétursson, sem er nýráðinn bæjarstjóri Fjarðabyggðar. Karl Óttar er jafnframt söngvari pönkrokksveitarinnar Saktmóðigur sem gaf frá sér plötuna Lífið er lygi í lok júní. Karl er fæddur og uppalinn í Reykjavík. Hann hyggst flytjast búferlum austur á firði.

Karl Óttar segist í samtali við fréttastofu ætla að halda áfram að sinna tónlistinni. 

En hvernig samrýmist það bæjarstjórastarfinu að vera rokkari?

„Það samrýmist örugglega mjög vel. Ég er búinn að vera yfirmaður í banka og það hefur gengið vel,“ segir Karl Óttar. Hann segist hafa fengið góð viðbrögð frá íbúum Fjarðabyggðar frá því tilkynnt var um ráðninguna í gær. 

„Maður verður að hafa gaman. Ég hef fulla trú á því að það verði brjálað stuð að búa í Fjarðabyggð. Þar eiga rokkararnir heima,“ segir Karl Óttar.

Þó svo að Karl hafi ekki áður búið í Fjarðabyggð þekkir hann Neskaupstað nokkuð vel enda hefur hann stýrt rokk- og metalhátíðinni Eistnaflugi í nokkur ár. Hátíðin hefst á miðvikudag í næstu viku og þetta verður síðasta hátíðin sem Karl stýrir. 

Mynd með færslu
 Mynd: Vefsíða Fjarðarbyggðar - RÚV

Fjarðabyggð samanstendur af sjö sameinuðum sveitarfélögum: Mjóafirði, Neskaupstað, Eskifirði, Reyðarfirði, Stöðvarfirði, Fáskrúðsfirði og Breiðdalsvík. 

Karl hefur ekki ákveðið á hverju þessara staða hann ætlar að búa en segist fagna nýjum göngum í Oddskarði sem haldi leiðinni til Neskaupstaðar opinni allt árið.