
Verður að opna veginn inn að Hvalá
Pétur Guðmundsson, bóndi í Ófeigsfirði hefur lokað veginum að Hvalá með dráttarvél til að koma í veg fyrir að náttúruverndarsinnar geti farið þar um
G. Pétur segir að umræddur vegur F649 sé landsvegur á forsjá Vegagerðarinnar.
„Hann er á vegaskrá og Vegagerðin er veghaldari vegarins og það má enginn loka slíkum vegum. Þeir eru allri opnir almennri umferð óháð því hvaða skoðanir menn hafa á þjóðmálum.“
Víða er það þannig að Vegagerðin á ekki landið undir veginum en hún hefur umráðarétt yfir honum og svolitlu svæði í kring. G.Pétur segir að mjög sjaldgæft sé að menn reyni að loka vegum.
„Við erum nú miklir friðarins menn hjá Vegagerðinni og við höfum rætt við Pétur um þetta og bent honum á að þetta sé ekki heimilt og að hann þurfi að færa dráttavélina. Þarna þurfi að vera opin og greiðfær leið. En hann er ekki alveg á því þannig að nú verðum einfaldlega að skoða til hvaða ráða við grípum vegna þess að það er ekki hægt að hafa veginn lokaðan. Við hins vegar höfum ekki valdheimildir til að gera eitthvað sjálfir þannig að við þurfum væntanlega, ef Pétri snýst ekki hugur í þessu, að leita til lögreglunnar um aðstoð.“
„Hvenær vísið þið málinu til lögreglu? Við væntanlega leitum liðsinnis þeirra en ég er ekki með það á hreinu hvenær af því yrði eða nákvæmlega hvernig við ætlum að vinna þetta áfram. Við erum að skoða það.“