Verðlaunuð fyrir baráttu gegn sóun

Mynd með færslu
 Mynd:

Verðlaunuð fyrir baráttu gegn sóun

04.11.2013 - 15:04
Verðlaun Norðurlandaráðs tengjast ekki einungis menningu. Náttúru- og umhverfisverðlaun hafa verið veitt frá árinu 1995. Þau hlaut að þessu sinni Selina Juul en hún stofnaði dönsku neytendahreyfinguna Stop spild af mad 2008, og hefur helgað sig baráttunni gegn sóun matvæla æ síðan.

Stefán Gíslason segir frá Selinu Juul og baráttu hennar í Sjónmáli í dag.

Sjónmál  mánudaginn 4. nóvember 2013

------------------------------------------------------------------ 

Pistill Stefáns

Selina Juul frá dönsku neytendahreyfingunni „Stop Spild Af Mad“ hlaut
Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir árið 2013, en verðlaunin
voru afhent á þingi ráðsins í Osló í síðustu viku. Verðlaunin fékk Selina fyrir
sjálfboðastarf sitt í baráttunni gegn sóun matvæla, en á síðustu árum hefur hún
lagt þeirri baráttu „ómetanlegt lið“, svo vitnað sé í orð dómnefndarinnar.

Það var gaman að fylgjast með Selinu á verðlaunaafhendingunni í Osló á
dögunum, því að það leyndi sér ekki hversu mikla þýðingu þessi verðlaun höfðu
fyrir hana. Samt er hún enginn nýgræðingur á verðlaunapallinum, því að samkvæmt
lauslegri talninu var þetta í 16. sinn sem hún vinnur til verðlauna vegna
baráttu sinnar gegn sóun matvæla eða er tilnefnd til slíkra verðlauna.
Verðlaunaféð, 350.000 danskar krónur, eða um 7.7 milljónir íslenskra króna,
kemur sér líka einkar vel, þar sem allir þessir peningar fara beint í tvö ný
verkefni samtakanna Stop spild af mad.

Selina Juul fæddist í Moskvu 7. mars 1980, en flutti til Danmerkur
þegar hún var 13 ára gömul. Þar tók hún BA próf í grafískri hönnun og hefur
unnið sjálfstætt í því fagi síðan hún var 22ja ára, þ.e.a.s. frá árinu 2002. Selina
hefur sagt frá því í fyrirlestrum að þegar hún var barn í grunnskóla hafi ekki
verið neitt sjálfsagt að til væri nóg af mat á heimilum til að hægt væri að
senda börnin í skóla með almennilegt nesti. Fyrst eftir að hún settist að í
Danmörku átti hún því erfitt með að skilja hversu kæruleysislega var farið með
matvælin þar í landi. Allt frá unglingsaldri var hún því mjög áhugasöm um
leiðir til að koma í veg fyrir sóun matvæla. Og þó að Danir hafi kannski nóg
til hnífs og skeiðar, þá búum við jú öll á einum litlum hnetti þar sem við
höfum skyldur við hvert annað.

Árið 2008 stofnaði Selina samtökin Stop
Spild Af Mad
og allar götur síðan þá hefur hún helgað þessu hugðarefni
mikinn meirihluta af öllum sínum tíma. Á heimasíðunni hennar kemur t.d. fram að
hún verji að meðaltali um 40 klukkutímum á viku í sjálfboðavinnu í þágu
samtakanna. Á þessum 5 árum sem liðin eru hafa samtökin vaxið ótrúlega hratt,
og um sama leyti og Selina tók á móti Náttúru- og umhverfisverðlaunum
Norðurlandaráðs gekk tíuþúsundasti félaginn til liðs við samtökin.

Stop spild af mad hefur staðið fyrir ýmsum
verkefnum og uppákomum til að vekja athygli fólks á sóun matvæla og fá það til
að hugsa sinn gang í þeim efnum. Þau hafa m.a. unnið markvisst að því að koma
sóun matvæla á dagskrá fjölmiðla, auk þess sem þau hafa hvatt einstaklinga til
að láta til sína taka, t.d. með því að draga úr sóun heima hjá sér, matreiða
afganga, hafa skynsemina með í för í matarinnkaupum og koma umframmat til
þeirra sem þurfa meira á honum að halda, til dæmis til heimilislausra. Svo
virðist sem þessi vinna hafi skilað verulegum árangri, því samkvæmt
Gallupkönnun sem gerð var fyrr á þessu ári hendir annar hvor Dani nú minni mat
en hann gerði áður.

Samtökin hafa ekki bara verið áberandi í Danmörku, heldur hafa þau
látið talsvert til sín taka á alþjóðlegum vettvangi. Meðal annars hefur Selina
farið víða og haldið fyrirlestra, en þeir sem séð hafa til hennar á þeim
vettvangi vita að þar er enginn meðal-Jóna á ferð. Þeir sem hafa hins vegar ekki séð hana gætu til dæmis
fundið sýnishorn á TEDx. Selina og félagar hennar hafa skrifað einhvers staðar
á bilinu 700-1.000 greinar í dagblöð og tímarit, og útvarps- og
sjónvarpsþættirnir þar sem þau hafa komið við sögu eru komnir eitthvað á annað
hundraðið, þar með talið á BBC og í þýsku sjónvarpi. Selina hefur líka gefið út
bók með uppskriftum úr afgöngum, en þessi bók hefur einmitt unnið til verðlauna
á alþjóðlegum vettvangi.

Eitt af nýjustu verkefnum Stop spild af mad gengur út á að koma
afgangapokum, eða það sem á útlensku er gjarnan kallað „doggybags“, í notkun á
sem flestum dönskum veitingastöðum, kaffihúsum og stóreldhúsum. Áður en hafist
var handa við þetta fengu samtökin Gallup til að gera skoðanakönnun á viðhorfi
fólks til afgangapoka. Niðurstöðurnar bentu til að flestir myndu taka því vel
ef þjónar byðu þeim poka undir afgangana – og því var ákveðið að láta til
skarar skríða.

Sóun matvæla er svo sannarlega ekkert smámál. Af þeim 7 milljörðum manna
sem nú búa á jörðinni sveltur tæpur milljarður. Á sama tíma er árlega hent 1,3 milljörðum
tonna af mat, sem myndi duga til að fæða 3 milljarða fólks, eða eins og Selina Juul orðaði það á
verðlaunahátíðinni í síðustu viku, „Við framleiðum umframmatvæli sem brauðfætt
gætu allar sveltandi konur, alla sveltandi karlmenn og öll sveltandi börn
heimsins, þrisvar sinnum“. Í Danmörku einni er hent 540.000 tonnum af mat á
hverju ári, eða rétt tæplega 100 kílóum á hvert mannsbarn. Þessi mikla sóun er
sögð kosta Dani um 16 milljarða danskra króna á ári. Það samsvarar því að
Íslendingar myndu henda matvælum fyrir um 20 milljarða íslenskra króna á ári,
að teknu tilliti til íbúafjölda og gengis gjaldmiðla þjóðanna.

Ástæður þess að matvælum er hent eru margar og fjölbreytilegar, og sumt
í þessum efnum er eingöngu spurning um vana. Þannig virðast neytendur til dæmis
forðast staka banana og kaupa frekar banana í klösum, sem leiðir beinlínis til
þess að ótölulegum fjölda banana er hent úr verslunum í hverri viku. Eins er
fólk oft hikandi við að kaupa grænmeti sem er óvenjulegt í laginu. Í sumum
tilvikum er löggjafinn líka búinn að taka af fólki ómakið hvað þetta varðar með
því að setja reglur um að gulrætur megi ekki fara á markað ef þær eru of bognar
– og ekki heldur kartöflur ef augun í þeim eru of djúp.

Í lokin má svo nefna að Selina Juul fellur undir algenga skilgreiningu
á hugtakinu „Íslandsvinur“, því að hún hélt erindi á málþinginu millimál og matarleifar, sem haldið var
í Norræna húsinu í Reykjavík 18. mars sl.