Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Verði að svara þeim sem sættu illri meðferð

10.04.2019 - 19:29
Mynd: Kristinn Ingvarsson / RÚV
Formaður Þroskahjálpar segir brýnt að stjórnvöld svari kröfu þeirra sem hafa sætt illri meðferð á vistheimilum. Forsætisráðherra hyggst hefja undirbúning að lagafrumvarpi vegna vistunar fatlaðra barna á stofnunum.

Margrét Esther Erludóttir sætti illri meðferð á fósturheimili sem hún var vistuð á þegar hún var barn. Fram kom í Kveik í gær að hún hefur í átta ár hefur hún reynt að fá það viðurkennt hjá yfirvöldum að ríkið og Reykjavíkurborg hafi vanrækt hana og ekki komið henni til bjargar. Henni hefur verið synjað um sanngirnisbætur og gjafsókn í málaferlum gegn hinu opinbera. Mál Estherar er ekki einsdæmi. Ólafur Hafsteinn Einarsson varð fyrir erfiðri reynslu þegar hann var vistaður í fangelsinu að Bitru á níunda áratugnum.

Formaður Þroskahjálpar segir að mál hans og Estherar séu sambærileg.

„Ef við horfum á hana og Ólaf sem var vistaður á Bitru þá er þeirra heitasta ósk að það sé viðurkennt að þau hafi verið beitt þessum órétti. Og eins og þau hafa bæði sagt að þau fái uppreist æru. Þannig að þetta er nákvæmlega það sem við höfum verið að berjast fyrir,“ segir Bryndís.

Rúmt ár er síðan Ólafur kom fram í fjölmiðlum og sagði frá baráttu sinni. Hann óskaði eftir því við þáverandi dómsmálaráðherra að starfsemin að Bitru yrði rannsökuð. Þroskahjálp átti fund með forsætisráðherra í janúar. Forsætisráðherra svaraði erindi samtakanna með bréfi í dag. Þar kemur fram að forsætisráðherra hafi ákveðið í samráði við dómsmálaráðherra að hefja undirbúning að lagafrumvarpi. Helstu atriði þess væru að kleift verði að ljúka uppgjöri vegna vistunar fatlaðra barna á stofnunum sambærilegum Kópavogshæli. Rétt er að taka fram að Esther var beitt kynferðisofbeldi á fósturheimili þegar hún var barn og Ólafur var vistaður á Bitru á fullorðinsaldri. Bryndís segir brýnt að stjórnvöld grípi til aðgerða vegna mála Estherar og Ólafs.

„Það eru fleiri í þessari stöðu og búa við þessa vanlíðan að það hafi bara hreinlega verið farið illa með þau af stjórnvöldum,“ segir Bryndís.

Esther fékk litla sem enga grunnmenntun.

„Mér finnst við skulda henni það að hún fái það bætt með einhverjum hætti. Ég er í miklu sambandi við Ólaf og hann þráir að fá svör. Þannig að hann bíður á hverjum einasta degi, og vaknar á hverjum einasta degi í þeirri von að fá einhver svör,“ segir Bryndís.