
Verðhjöðnun í Japan
Seðlabanki Japans spáir raunar að 1,5 prósent verðbólga verði á þessu ári, en fáir hagfræðingar telja að sú spá gangi eftir. Japanar hafa undanfarin ár reynt að auka hagvöxt með því að dæla peningum í hagkerfið en það hefur ekki borið árangur. Joseph Stiglitz, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, segir að Japanar verði að breyta um stefnu.
Aukinn hlutur kvenna nauðsynlegur
Hann hrósar þó Abe forsætisráðherra fyrir tilraunir sínar til að auka hlut kvenna í atvinnulífinu. Beri þær tilraunir árangur aukist bæði framleiðni og hagvöxtur. Gerist það verði það lyftistöng fyrir hagkerfi heimsins. Stiglitz segir einnig að ekki megi gleyma því að þrátt fyrir stöðnun í aldarfjórðung sé efnahagskerfi Japans hið þriðja stærsta í veröldinni. Stiglitz ritaði ráðleggingar sínar í grein í The Guardian í haust.
Verða að breyta um innflytjendastefnu
Breska tímaritið Economist segir í efnahagsspá í síðustu viku að vilji Japanar ná takmarkinu um tvö prósent hagvöxt verði Shinzo Abe og stjórn hans að endurskoða ýmislegt eins og innflytjendastefnu. Þjóðin eldist hratt og þörf sé á innfluttu vinnuafli. Fækkað hefur um tvær milljónir á vinnumarkaði síðastliðin 20 ár og starfsfólk skortir í mörgum greinum atvinnulífsins. Economist segir hins vegar að hvorki stjórnin né almenningur vilji slaka á mjög ströngum innflytjendalögum. Þrátt fyrir þessi vandræði nýtur Shinzo Abe mikils stuðnings.