Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Verðhjöðnun í Japan

29.01.2017 - 17:55
epa04082768 Japan's national flag is seen with container cranes in the background in Tokyo, Japan, 17 February 2014. The Japanese government said the economy grew at an annual rate of one percent in the October-December period, less than expected
 Mynd: EPA
Vísitala neysluverðs í Japan heldur áfram að lækka. Lítill sem enginn hagvöxtur hefur verið í landinu undanfarna áratugi. Nýjar tölur um þróun neysluverð í Japan voru birtar í síðustu viku og staðfestu að verðhjöðnun hefði verið tíunda mánuðinn í röð. Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, lýsti stríði á hendur verðhjöðnun þegar hann tók við völdum 2012. Hingað til hefur sá hernaður borið lítinn sem engan árangur.

Seðlabanki Japans spáir raunar að 1,5 prósent verðbólga verði á þessu ári, en fáir hagfræðingar telja að sú spá gangi eftir. Japanar hafa undanfarin ár reynt að auka hagvöxt með því að dæla peningum í hagkerfið en það hefur ekki borið árangur. Joseph Stiglitz, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, segir að Japanar verði að breyta um stefnu.

Aukinn hlutur kvenna nauðsynlegur

Hann hrósar þó Abe forsætisráðherra fyrir tilraunir sínar til að auka hlut kvenna í atvinnulífinu. Beri þær tilraunir árangur aukist bæði framleiðni og hagvöxtur. Gerist það verði það lyftistöng fyrir hagkerfi heimsins. Stiglitz segir einnig að ekki megi gleyma því að þrátt fyrir stöðnun í aldarfjórðung sé efnahagskerfi Japans hið þriðja stærsta í veröldinni. Stiglitz ritaði ráðleggingar sínar í grein í The Guardian í haust.

Verða að breyta um innflytjendastefnu

Breska tímaritið Economist segir í efnahagsspá í síðustu viku að vilji Japanar ná takmarkinu um tvö prósent hagvöxt verði Shinzo Abe og stjórn hans að endurskoða ýmislegt eins og innflytjendastefnu. Þjóðin eldist hratt og þörf sé á innfluttu vinnuafli. Fækkað hefur um tvær milljónir á vinnumarkaði síðastliðin 20 ár og starfsfólk skortir í mörgum greinum atvinnulífsins. Economist segir hins vegar að hvorki stjórnin né almenningur vilji slaka á mjög ströngum innflytjendalögum. Þrátt fyrir þessi vandræði nýtur Shinzo Abe mikils stuðnings.
 

 

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV