Verða af tveimur tonnum á klukkutíma á Bakka

10.07.2018 - 10:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Ekki er ljóst hversu mikið tjón verður vegna eldsins sem kviknaði í kísilveri PCC á Bakka í gær en fyrirtækið verður af um tveimur tonnum af framleiðslu hverja klukkustund sem slökkt er á ofni versins. Framleiðsla stöðvast í einhverja daga. Engan sakaði og hratt gekk að ráða niðurlögum eldsins þótt hann hafi verið talsverður þegar slökkvilið mætti.

Eldurinn, sem gerði vart við sig um klukkan átta í gærkvöldi, virðist hafa kviknað í hráefnisinnmötun fyrir ofn kísilversins. Þetta segir Hafsteinn Viktorsson, forstjóri PCC á Bakka. Starfsmenn hafi orðið varir við reyk og strax hafi verið hringt í slökkvilið. 

Ekki eins og í álveri

„Þetta mun stöðva framleiðsluna hjá okkur í einhvern tíma,“ segir Hafsteinn. „Akkúrat núna er þetta svo nýskeð að við vitum ekki nákvæmlega hversu miklar skemmdir eru eða hversu alvarlegar. Við vitum ekki hversu mikil áhrif þetta hefur en þetta mun allavega stöðva framleiðslu hjá okkur í einhverja daga. Það er nokkuð ljóst.“

Um tvö tonn kísils tapist af framleiðslu hvern klukkutíma sem slökkt er á ofninum. Hins vegar sé auðvelt að ræsa ofnana aftur „Þetta er ekki eins og í álveri þar sem verður gríðarlegt tjón ef slökkt er á í langan tíma. Það er ekkert svoleiðis, það er tiltölulega auðvelt að koma ofninum í gang aftur og það verður ekkert tjón á ofninum.“

Vonar að eldurinn raski ekki framkvæmdum

Hafsteinn segir að eiginlegum byggingarframkvæmdum sé lokið á Bakka en næsta skref framkvæmda var að setja ofn númer tvö í gang í verinu. Vonast er til að eldurinn, sem kviknaði hjá ofni númer eitt, hafi ekki áhrif á það. „Við gerum okkur vonir um að við getum haldið okkar striki og sett ofn númer tvö í gang innan fárra daga,“ segir Hafsteinn.

Um tíu starfsmenn hafi starfað við ofninn sem þegar var í gangi þegar eldurinn kviknaði. „En við eigum fullt af framleiðslu sem þarf að mala og ganga frá og þar er unnið á fulli, í þeim hluta verksmiðjunnar. Það er nóg að gera á stóru heimili þannig að það er ekki eins og fólki sitji með lappirnar uppi á borði. Það er nóg að gera.“

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi