Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Verða að þekkja viðbrögð við áreitni

21.01.2018 - 15:05
Kjartan Bjarni Björgvinsson, héraðsdómari í silfrinu 21.01.2018
 Mynd: RÚV
Kjartan Bjarni Björgvinsson, héraðsdómari, segir að á atvinnurekendum hvíli skylda að setja ákveðnar reglur um viðbrögð gegn kynferðislegri áreitni. Hann segir að það sé mikilvægt að það liggi skýrt fyrir á vinnustaðnum hvernig er tekið á þessum málum og að allir þekki ferlið sem kemur upp.

„Mér þætti forvitni að vita hversu mörg fyrirtæki hafa sett sér skýra áætlun og verklagsreglur um hvernig á að taka á kynferðislegri áreitni á vinnustað. Ég held að það væri fróðlegt að fá það fram hversu mörg stofnanir, fyrirtæki, skólar hafa sinnt því. Atvinnurekendum hvílir skylda að setja ákveðnar reglur og forvarnarstarf. Forvitnilegt að velta því fyrir sér hversu margir hafa gert það nú þegar og hvers vegna það hefur ekki verið gert. Svo koma þessi mál upp og það tekst ekki vel að taka á þeim, kannski vegna þess að fólk þekkir ekki reglurnar og reglurnar skilgreina ábyrgðina,“ segir Kjartan Bjarni sem var gestur í Silfrinu í morgun. 

Kjartan Bjarni stendur fyrir námskeiði á vegum Háskóla Íslands um metoo-hreyfinguna og lög og reglur vegna kynferðislegrar áreitni. Kjartan Bjarni telur að metoo-hreyfingin sé það sem liggur fólk mest á hjarta í upphafi árs, en það sé ekki nóg að vilja breytingar heldur þurfi frekari áætlun. „Það sem er svo fallegt við þessa hreyfingu er að það eru svo margir að vilja gerðir til að laga þetta og breyta þessu. En fólk kannski áttar sig ekki alveg á hvernig. Það er ekki nóg að vilja hlutina, við þekkjum þetta öll í janúarbyrjun ― við ætlum að vera duglegri í ræktinni og borða hollari mat. Það er ekki nóg að vilja hlutina, við þurfum að vera með áætlun um hvernig við ætlum að hrinda þeim í framkvæmd. Það er kannski þar sem boltinn liggur núna,“ segir Kjartan Bjarni.

Mikilvægt að þolendur viti að tekið sé á málinu

Kjartan segir að það sé einnig mikilvægt að starfsmenn á vinnustöðum þekki reglurnar og ferlið sem fer í gang í kjölfar kynferðisáreitni. „Það sé mikilvægt að það liggi nokkuð skýrt fyrir að vinnustaðnum hvernig er tekið á þessu málum. Starfsmenn fái skýr skilaboð að þetta verði ekki liðið, þekki ferlið og þetta hafi afleiðingar ef þetta gerist á vinnustað. Að þolendur viti það að það verði tekið alvarlega á þessum málum og þau njóti þá ákveðinnar verndar og þekki ferlið sem kemur upp,“ segir Kjartan Bjarni.

Foreldrar áhyggjufullir vegna reynslusagna íþróttakvenna

Stjórnmálaflokkarnir standa fyrir sameiginlegum fundi allra flokka í fyrramálið vegna metoo-hreyfingarinnar. Þar verður reynt að kryfja hvernig stjórnmálaflokkar geti beitt sér fyrir því að minnka líkur á að áreitni sé liðin. Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar var einnig gestur í Silfrinu í morgun. Hún segir að reynslusögur íþróttakvenna í vikunni hefðu verið sláandi. „Foreldrar út um allt land hafa kíkt á stöðuna í íþróttafélögum sem börnin þeirra eru í. Ég nefni þetta sem dæmi af því að sögurnar þar voru svo hræðilegar, ég gat ekki klárað að lesa þær fyrir tárum. Flestir sem hafa stigið fram eru ungar konur. Ég held að ég myndi ekki treysta mér til að fara í mínar sögur. Ég búin að pakka þeim svo vel inn og setja þær svo langt ofan í kistu en mér finnst þessar ungu konur vera hetjur og við skuldum þeim að halda áfram með málið,“ segir Oddný.