Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Verða að stórefla forvarnir

06.08.2012 - 22:08
Mynd með færslu
 Mynd:
Talskona Stígamóta segir það skyldu aðstandenda þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum að verja góðum hluta af ágóða hátíðarinnar í að efla forvarnir gegn nauðgunum til muna. Reynsla fyrri ára sýni að mun fleiri nauðganir hafi verið framdar um helgina en þær þrjár sem þegar hafa verið kærðar.

Lögregla leitar enn tveggja manna sem báðir eru grunaðir um nauðgun á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í nótt. Tvær konur leituðu sér hjálpar í nótt vegna nauðgana. Þar með hafa þrjú kynferðisbrot verið kærð á þjóðhátíð.

„Þetta er bara byrjunin vegna þess að viðbrögð kvenna við nauðgunum er að bíta á jaxlinn og reyna að grafa og gleyma. Þegar þær átta sig á því að það er ekki hægt þá leita þær sér hjálpar,“ segir Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta.

„Reynslan hefur sýnt okkur að konur eru að koma seint og um síðir. Á síðasta ári leituðu 5 konur til okkar vegna nauðgana, engin þeirra hafði kært sín mál eða farið á neyðarmóttöku. Árið áður voru þær 14,“ segir hún. „Það sem skiptir öllu máli núna er að hvetja þær stúlkur sem gætu hafa verið beittar kynferðisofbeldi á útihátíðum um helgina að leita sér hjálpar.“

Guðrún segir bestu og mikilvægustu leiðina til að útrýma kynferðisofbeldi á útihátíðum vera forvarnir.

„Eftir því sem ég best veit höluðu Vestmannaeyingar í fyrra inn 200 milljónir á útihátíð. Mér finnst það algjör skylda þeirra að setja góðan pening í að vinna að forvörnum. Það er svona kominn vísir að því, en það þarf að gera miklu meira. Og þessum forvörnum þarf auðvitað að beina í rétta átt, að þeim sem mögulega nauðga,“ segir Guðrún.