Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Verða að halda sér á jörðinni í efnahagsbólu

02.09.2017 - 12:08
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Það er mikilvægt að halda sér á jörðinni og taka skynsamlegar ákvarðanir núna þegar Íslendingar ganga í gegnum efnahagsbólu, sagði Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra og formaður Bjartrar framtíðar, ár ársfundi flokksins í morgun. Hann sagði að byggja þyrfti upp innviði eftir þurrð síðustu ára en það væri ekki hægt að gera allt í einu. Óttarr sagði að margt þyrfti að gera en sumt hefði mikil áhrif, til dæmis hefði uppbygging Landspítala mikil efnahagsleg áhrif vegna stærðar sinnar.

„Við erum í þessari furðulegu stöðu að eftir einhverja mestu efnahagslægð sem við þekkjum, allavega í okkar lífi, erum við á toppi efnahagsbólu, myndi ég vilja segja. Það er mikill ábyrgðarhluti að stjórna þegar vel gengur,“ sagði Óttar. „Við höfum oft sagt áður í Bjartri framtíð að sagan segir okkur að ef Íslendingar eru góðir í einhverju er það að redda sér við áföll, bjarga sér þegar það kemur stormur eða hrun en að við erum ekkert sérstaklega góðir í að stjórna þegar gengur vel.“ Íslendingar væru duglegir að keyra upp skýjaborgir og spenna bogann þegar gengi vel svo óumflýjanlegt væri að allt færi til andskotans þegar gengi vel.“

Óttarr sagði að það væri hundleiðinlegt að þurfa að fresta góðum verkefnum vegna þess að stjórna þyrfti af ábyrgð. Þetta væri þó nauðsyn.

„Óvenju fullorðinslegt“

Ársfundur Bjartrar framtíðar í dag er sá fyrsti sem flokkurinn heldur eftir að hann komst í ríkisstjórn. „Þetta er óvenju fullorðinslegt. Ég held jafnvel að þetta sé í fyrsta skipti sem við erum með púlt á ársfundi,“ sagði Óttarr í upphafi fundar.

Óttarr rifjaði upp að fyrir ári síðan hefði Björt framtíð haldið ársfund í Gufuneshlöðunni á tíma þegar flokkurinn barðist fyrir tilveru sinni. Hann sagðist ekki muna hversu lengi flokkurinn hefði verið afskrifaður á þeim tíma vegna lítils fylgis í skoðanakönnun. „Ekki bara fengum við gott brautargengi í þeim kosningum, fengu fjóra menn  kjörna, heldur vorum við í þessari óvenjulegu og kannski óvæntu stöðu að Björt framtíð var lykilflokkuri í að mynda ríkisstjórn.“ Hann sagði að fyrir ári síðan hefðu kannski ekki nema þeir bjartsýnustu séð það fyrir.

Hafa áhrif og taka ábyrgð

Óttarr sagði að félagar í Bjartri framtíð sem komu að stjórnarmyndunarviðræðum hefðu rætt mikið og lengi um hvort og hvernig flokkurinn ætti að taka þátt í stjórnarmyndunarviðræðu. „Niðurstaðan varð trekk í trekk sú sama. Við erum í stjórnmálum til að hafa áhrif og taka ábyrgð,“ sagði Óttarr. Hann sagðist hafa upplifað það oft frá þessum tíma að það væri meira en að segja það að standa í því að vera í ríkisstjórn. Sérstaklega fyrir lítinn flokk sem væri ekki með kjarnastarfsemi í öllum sveitarfélögum.

„En það er hins vegar auðvelt og gefandi af því að við höfum skýra sýn á það sem við viljum gera.“ Það væri frjálslynt og framsækið samfélag, opin og jöfn tækifæri. „Við erum ekki að segja að það eigi allir að vera nákvæmlega eins en við erum að segja að það eigi enginn að vera útundan.“

Ræða Óttars Proppé á ársfundi Bjartrar framtíðar er birt í heild sinni hér að ofan. Til stóð að senda hana út í beinni útsendingu en vegna vandræða með vefþjón tókst ekki að senda út upphaf hennar.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV