Verða að greiða gengislán

Mynd með færslu
 Mynd:
Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að P. Árnason fasteignir yrðu að greiða Arion banka gengislán sem fyrirtækið fékk hjá Kaupþingi 22. nóvember 2007. Lánið var greitt inn á gjaldeyrisreikninga og því taldi Hæstiréttur að lánið væri löglegt.

Forsvarsmenn P. Árnasonar fasteigna töldu að lánið væri ólöglegt. Það var vegna þess að í lánasamningi var miðað við lánsfjárhæð sem væri jafnvirði 20 milljóna íslenskra króna í Bandaríkjadölum, svissneskum frönkum, japönskum jenum og evrum. Þetta töldu forsvarsmenn fyrirtækisins til marks um að lánið væri í raun gengistryggt lán í íslenskum krónum klætt í búning erlends láns. Eins sögðu þeir að þó lánið hafi verið greitt inn á gjaldeyrisreikninga í nafni fyrirtækisins hafi peningur á þeim reikningum aldrei verið til frjálsra afnota fyrir félagið, heldur eingöngu íslenskrar krónur. Slíkt hafi því verið málamyndagjörningur.

Forsvarsmenn fyrirtækisins sömdu við bankann í mars 2009 um breytingar á skilmálum lánsins og að það yrði greitt upp með mánaðarlegum gjalddögum frá 10. október 2009. Greiðslur voru inntar af hendi fyrstu tvo gjalddagana en ekkert eftir það. 

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu, líkt og Héraðsdómur Reykjavíkur, að lánið væri löglegt þar sem greitt hefði verið inn á gjaldeyrisreikninga og miðað við hvernig orðalag og uppsetning lánasamningsins var. Um hann þótti gilda það sama og um gengislánasamning Íslandsbanka sem Hæstiréttur dæmdi löglegan í júní síðastliðnum.

Lánið nam upphaflega 20 milljónum króna en greiðslurnar sem P. Árnason fasteignir verður nú að reiða af hendi í dollurum, jenum, evrum og frönkum nema tæpum 43 milljónum krónum.

Hæstiréttur, og Héraðsdómur Reykjavíkur á undan honum, komst að þeirri niðurstöðu að lánið væri löglegt. Bæði vegna þess að það var greitt inn á gjaldeyrisreikninga og eins vegna þess hvernig lánið var uppbyggt. Það var sambærilegt við gengislán Íslandsbanka sem dæmt var löglegt í júní. Íslandsbankamenn telja að þess vegna eigi nýfallinn gengisdómur í máli Borgarbyggðar ekki við um húsnæðislán þeirra. Ekki er hins vegar búið að meta áhrif dómsins í dag á gengislán Arion banka.

Í yfirlýsingu sem Íslandsbanki sendi frá sér í kvöld segir að það sé ranghermt sé í upphaflegri útgáfu fréttarinnar að bankinn telji dóm Hæstaréttar frá 18. október ekki eiga við lán bankans. Hið rétta sé að Íslandsbanki hafi byrjað að endurútreikna lán fólks og fyrirtækja sem bankinn telji að falli undir dóma Hæstaréttar frá 15. febrúar og 18. október, enda sé um ólögmæt gengistryggð lán að ræða sem lántakar hafi greitt af í samræmi við gildandi skilmála á hverjum tíma.

Það sé mat bankans að dómurinn taki einnig til ákveðinna lána sem tekin voru til skemmri tíma en þau sem reyndu á í dómunum. Bankinn hafi því að auki byrjað að endurútreikna ólögmæt gengistryggð bílalán og bíla- og kaupleigusamninga. Samkvæmt bráðabirgðaúttekt sé samtals um að ræða að minnsta kosti 6.000 lán eða samninga.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi