Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

„Velferð dýra er fórnað“

26.09.2015 - 18:43
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Legusár á gyltum á íslenskum svínabúum eru gott dæmi um verksmiðjubúskap þar sem velferð dýranna er fórnað, segir formaður Dýraverndarsambands Íslands.

Matvælastofnun hefur farið fram á að gyltum á íslenskum svínabúum verði slátrað vegna slæmra legusára. Legusár fundust á gyltum á öllum búum sem heimsótt voru í fyrra. Þar sem ástandið var verst var önnur hver gylta sem skoðuð var eftir got, með sár. Dýralæknir hjá Matvælastofnun segir að legusárin stafi oft af því að gylturnar liggi á hörðu undirlagi, og liggi mikið því þær séu lélegar í fótum vegna hreyfingarleysis á þröngum básum.

„Dýraverndarsamband Íslands hefur skilgreint þauleldi sem verksmiðjubúskap þar sem velferð dýra er fórnað fyrir hámörkun nytja, og þetta er gott dæmi um það. Við erum auðvitað bara fegin að það kemur fram, en við erum hins vegar viss um að legusár eru ekki ný,“ segir Hallgerður Hauksdóttir, formaður Dýraverndunarsambands Íslands.

Samkvæmt nýrri reglugerð er bannað að hafa gyltur á básum nema á fengitíma og í kringum got, en svínaræktendur fá allt að tíu ára aðlögunartíma. Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvegaráðuneytinu fékk ráðuneytið úttekt Matvælastofnunar eftir að reglugerðin var sett.

„Við þurfum að hugsa þetta upp á nýtt, er það ekki? Viljum við fara svona með dýr til þess að fá kjötið ódýrara? Ég held að fólk vilji það ekki,“ segir Hallgerður.

Formaður Svínaræktarfélags Íslands vildi ekki veita viðtal.